Hönnunarleiðbeiningar fyrir almenningsrými og götur í Nýja-Skerjafirði, sem deild borgarhönnunar hjá Reykjavíkurborg vann að í samstarfi við sænsku arkitektúrstofuna Mandaworks, voru á meðal sex verka sem valin voru til sýningar á arkitektúrhátíðinni Óslóarþríæringnum, Oslo Architecture Triennale, sem hófst formlega í gær.
Alls bárust 383 framlög í opna samkeppni hátíðarinnar, frá öllum heimshornum, samkvæmt því sem skipuleggjendur Óslóarþríæringsins segja, en þema þríæringsins þetta árið eru hverfi borga og bæja, skipulagning þeirra og hlutverk.
Sérstök áhersla er á norrænar borgir, og segir hinn danski Christian Pagh, sem er framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi Óslóarþríæringsins í ár, að borgir á Norðurlöndunum geti lært mikið hver af annarri og í sameiningu ef til vill orðið fyrirmyndir annarra, við sköpun mannvænna hverfa.
Blaðamaður Kjarnans er staddur í Ósló og hefur sótt viðburði opnunardaga hátíðarinnar. Á blaðamannafundi á miðvikudag sagði Pagh að bæði hér í Ósló og á alþjóðavísu væri mikil umræða um þessar mundir um gæði húsnæðis og aðgengi að því.
Ekki síst væri þessi umræða hávær nú í kjölfar þess að kórónuveirufaraldurinn skall á, því þegar hann geisaði sem harðast hafi sést glögglega að hverfi margra borga búa yfir mjög mismunandi gæðum og að slæmt skipulag bitnaði beinlínis á heilsu og lífsgæðum íbúanna.
Þessi þáttur skipulags, að hverfi snúist um annað og meira en að vera bara staðir til þess að sofa, þarf meiri athygli að mati Pagh. Því er sjónum beint að hverfunum í efnistökum þríæringsins í ár.
Í umsögn dómnefndar sagði að í hönnunarleiðbeiningum Nýja-Skerjafjarðar væri farið yfir fjölda lausna til þess að tryggja hágæðaalmenningsrými, með áherslu á að móta borgarlandið á milli bygginganna; garða, torg og götur. Í hönnunarleiðbeiningunum er lagt upp með að bílar verði víkjandi, hægfara og lítt áberandi á yfirborði, á meðan að göturnar verði staðir sem styðji við lífið í hverfinu. Bílastæði í hverfinu eiga að mestu að verða í miðlægu bílastæðahúsi.
Kynningin á hönnunarleiðbeiningnum á sjálfri hátíðinni er í formi vídeóverks, sem verður til sýnis í gamla Munch-safninu í Tøyen-hverfinu í Ósló næsta mánuðinn, en safnahúsið, sem ekki hefur enn fengið nýtt hlutverk til framtíðar frá því að nýja Munch-safnið við sjávarsíðuna var tekið í notkun í fyrra, er aðalvettvangur arkitektúrþríæringsins.
En fær hverfið að rísa samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi?
Þrátt fyrir að hönnunarleiðbeiningarnar fyrir hverfið hafi mælst vel fyrir hjá dómnefndinni í Ósló er sem kunnugt er alls óvíst hvenær hægt verður að fara að vinna eftir þeim, og samþykktu deiliskipulagi svæðisins, sem felur í sér byggingu alls um 690 íbúða í fyrri hluta uppbyggingarinnar, auk uppbyggingar nýs grunnskóla.
Deilur hafa staðið yfir á milli innviðaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um hvort heimilt sé að hefja uppbygginguna í Nýja-Skerjafirði og hefur komið fram að starfshópur, svokallaður „spretthópur“, eigi að skila niðurstöðu um málið í upphafi októbermánaðar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, sagði í nýlegu svari við skriflegri fyrirspurn á þingi að ekki væri unnt að fallast á áætlanir Reykjavíkurborgar um byggðina í Skerjafirði að óbreyttu.
Í svarinu sagði að óásættanlegt væri að farið yrði í uppbyggingu hverfisins án þess að fullkannað væri hvort og þá með hvaða hætti tryggt yrði að þær myndu ekki hafa neikvæð áhrif á rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.
„Ráðherra mun því hvorki geta fallist á að farið verði í umræddar framkvæmdir í Skerjafirði né aðrar slíkar framkvæmdir í næsta nágrenni við flugvöllinn nema sýnt hafi verið með óyggjandi hætti fram á að flugöryggi og rekstraröryggi sé ekki stefnt í hættu,“ sagði í svari ráðherra.