Árið 2002 átti ríkasta eitt prósent íslenskra skattgreiðenda um 17 prósent af öllum auði landsmanna.* Tíu árum síðar, árið 2012, var hlutfallið 22,5 prósent. Á verðlagi ársins 2012 þá hækkaði hrein eign fólks í þessum hópi að meðaltali úr 173,5 milljónum króna árið 2002 í 243,7 milljónir króna árið 2012. Auður hvers skattgreiðenda sem tilheyrir eina prósentinu hefur því að jafnaði vaxið um 40 prósent á tíu árum. Á sama tíma hefur hrein eign allra skattgreiðenda aukist um tæp 30%.
Á vef Hagstofunnar er að finna yfirlit yfir eignir, skuldir og eigið fé (eignir umfram skuldir) skattgreiðenda frá 1997 til 2013. Gögnunum er skipt í tíundu hluta eftir eiginfjárstöðu fólks, það er hversu miklar eignir það á umfram skuldir. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni hafa tölur um eina prósentið ekki verið birtar opinberlega, en tvívegis verið teknar saman að ósk OECD, fyrir árin 2002 og 2012. Útreikningar á auði þessa fólks byggja á þeim gögnum.
Fréttastofa RÚV fjallaði um málið í kvöldfréttum í gær.
Áttu mest 2010
Ef litið er til ríkustu tíundarinnar, það eru 10% skattgreiðenda sem eiga mest af hreinum eignum, þá átti sá hópur um 70,7 prósent alls auðs árið 2013. Í hópinum eru þeir 19.324 skattgreiðendur sem eiga meira en 39,1 milljón í hreinni eign. Til þess að tilheyra efsta eina prósentinu, samtals um 1.900 skattgreiðendur, þá þarf skattgreiðandi að eiga 122 milljónir í hreinni eign, samkvæmt tölum Hagstofunnar um skiptingu tíunda.
Taflan hér að neðan sýnir hvernig auður efsta 10% hópsins af heildar eigin fé óx frá 2005 til 2010 en hefur dalað síðan. Frá 2005 fór hlutfallið úr því að vera 55,7 prósent af öllum hreinum eignum, yfir í heil 86,7 prósent árið 2010.
Hrein eign ríkustu tíundar skattgreiðenda af heild |Create infographics
Sjá einnig: Helmingur Íslendinga á 750 þúsund eða minna.
*Auður er hér skilgreindur sem eignir umfram skuldir, eða hrein eign skattgreiðenda.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 22. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.