Þýskaland mun taka við 40 þúsund hælisleitendum sem nú eru í Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi, og Frakkland mun taka við 30 þúsund hælisleitendum frá löndunum þremur, samkvæmt nýjum drögum að samkomulagi um fjölda hælisleitenda og dreifingu þeirra innan Evrópusambandsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu Reuters verður áður samþykktur kvóti, sem kvað á um flutninga 40 þúsund hælisleitenda til annarra Evrópusambandsríkja frá Ítalíu, Grikklandi og Ungverjalandi, hækkaður í 160 þúsund manns.
Áætlað er að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynni nýtt samkomulag á miðvikudag. Fyrra samkomulag náði aðeins til Ítalíu og Grikklands en það mun nú einnig ná til flóttafólks í Ungverjalandi. Löndin þrjú hafa verið algengustu komustaðir flóttamanna frá Sýrlandi þegar þeir stíga fæti inn í Evrópu, þau tvö fyrrnefndu hafa verið fyrsti viðkomustaður þeirra flóttamanna sem ferðuðust sjóleiðina og Ungverjaland hefur glímt við mikla fjölgun flóttamanna sem ferðast landleiðina í gegnum Balkanskaga.
Í júní tókst ekki að semja um bindandi lágmarksfjölda flóttamanna sem hvert ríki ESB skyldi taka að sér. Síðan þá hefur straumur flóttamanna til álfunnar vaxið gríðarlega og hefur aldrei verið viðlíka í sögunni. Frönsk og þýsk stjórnvöld þrýsta nú á önnur ríki Evrópusambandsins um að gangast við dreifingu flóttamanna um álfuna.