Ríkissjóður og Betrí samgöngur ohf., félag sem ríkið og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins stofnuðu og eiga í sameiningu, hafa undirritað samning um að félagið taki við Keldnalandinu svokallaða, alls um 116 hektara landi við Keldnaholt og Keldur. Kaupverðið er 15 milljarðar króna en greitt verður fyrir það með útgáfu nýrra hluta í Betri samgöngum. Ríkið er því í raun að leggja landið inn í félagið án greiðslu. Stærð þess að flatamáli er svipuð og miðborgar Reykjavíkur.
Samningurinn er gerður á grundvelli samgöngusáttmálans sem undirritaður var árið 2019. Þar kom fram að allur ábati ríkisins af sölu og þróun Keldnalandsins myndi renna til uppbyggingar samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ef ábati verkefnisins verður meiri en þeir 15 milljarðar króna sem áætlað er munu þeir fjármunir renna til Betri samgangna.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að það eigi að gera slíkt með „það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika eins og kostur er með hagkvæmu skipulagi og nýtingarhlutfalli sem samræmist áformum um þéttingu byggðar á samgöngu- og þróunarás Borgarlínu.“
20 mínútur með Borgarlínu frá Keldum á Lækjartorg
Í tilkynningunni er rifjað upp að í samgöngusáttmálanum hafi verið ákveðið að flýta uppbyggingu framtíðarhverfis að Keldum sem og framkvæmdum við Borgarlínu sem fara á um hverfið endilangt. Þjónusta Borgarlínu er ein helsta forsenda þess að hægt sé að umbreyta Keldum og Keldnaholti í þétta og blandaða byggð með íbúðum, þjónustu og atvinnuhúsnæði. Áætlaður ferðatími með Borgarlínu milli Keldna og Lækjartorgs er um 20 mínútur.
Þar segir enn fremur að Betri samgöngur hafi í samstarfi við skipulagsyfirvöld unnið að undirbúningi þróunar svæðisins síðan um mitt síðasta ár. „Snemma á nýju ári verður farið í alþjóðlega samkeppni um þróunar- og uppbyggingaráætlun fyrir Keldur og Keldnaholt í samvinnu félagsins og Reykjavíkurborgar. Í framhaldinu verður unninn rammahluti Aðalskipulags Reykjavíkur, deiliskipulags- og uppbyggingaráætlanir á grunni verðlaunatillögu í samkeppninni. Stefnt er að því að hægt verði að þróa deiliskipulag fyrir fyrstu uppbyggingarreitina á svæðinu haustið 2023.“
900 milljónir vegna tafa á flýtigjöldum
Þegar samgöngusáttmálinn var gerður var hann kynntur sem 120 milljarða fjárfesting í samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu. Stærsti kostnaðarliður sáttmálans er hin svokallaða Borgarlína. Þá var boðað að ríkið kæmi með 45 milljarða króna að borðinu, að meðtöldu söluverðmæti Keldnalandsins, og sveitarfélögin 15 milljarða króna. Þá stóðu eftir 60 milljarðar, sem boðað var að innheimta skyldi með sérstökum flýti- og umferðargjöldum til ársins 2033. Sú tala hefur nú verið uppreiknuð, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, og er nú áætluð 74,6 milljarðar króna.
Ef upphæðinni er skipt jafnt yfir árin frá og með 2024 og út samningstímann þá nema árlegar tekjur af flýti- og umferðargjöldum 7,5 milljörðum króna.
Meirihluti fjárlaganefndar, skipaður nefndarmönnum stjórnarflokkanna þriggja, lagði til fyrr í þessum mánuði að Betri samgöngur myndi fá 900 milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári. Ástæðan er sú að ekki kemur til álagningar flýti- og umferðargjalda á árinu 2023 eins og gert var ráð fyrir í sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019 og eiga að fjármagna rekstur félagsins.