Núvirtur heildarkostnaður vegna framkvæmda við Borgarlínu fram til ársins 2033 nemur tæplega 53 milljörðum króna. Þar af verður hlutur ríkisins rúmir 46 milljarðar króna á verðlagi dagsins í dag, samkvæmt því sem fram kemur í svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við skriflegri fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þingmanns Miðflokksins um málið.
Sigmundur Davíð vildi fá að vita hver áætlaður núvirtur kostnaður af framkvæmdum við borgarlínuverkefnið væri og einnig hver mikill kostnaður ríkisins við rekstur Borgarlínu og annarra almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu væri áætlaður til framtíðar.
Svörin við hinu síðarnefnda eru ansi rýr, en vísað er til upplýsinga frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um að ekki hafi verið samið um neina aðkomu ríkisins að rekstri Borgarlínunnar.
Eins og Kjarninn sagði nýlega frá hafa bæði Strætó og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) komið því á framfæri að ríkið þurfi að stíga sterkar inn í fjármögnun almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðisins. Í umsögn SSH um drög að Grænbók í samgöngumálum var látið að því liggja að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið drægi lappirnar við að hefja samtal um þetta atriði.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs er þó minnst á að samhliða undirritun samgöngusáttmálans, sem var í september 2019, hefði verið undirrituð viljayfirlýsing um framlengingu á framlagi ríkisins til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, en ríkið hefur frá árinu 2012 lagt til einn milljarð á ári til almenningssamgangna.
Í viljayfirlýsingunni frá 2019 var gert ráð fyrir að þessi ríkisframlög til rekstrar almenningssamgangna yrðu að „minnsta kosti óbreytt“ til ársins 2034 – sem jafngildir um 12 milljörðum króna að núvirði.