Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli

Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.

Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Auglýsing

Alþingi hefur ályktað að umhverfis- auðlindaráðherra verði falið fyrir hönd íslenska ríkisins að gangast fyrir rannsókn á umfangi mengunar í jarðvegi og grunnvatni í Heiðarfjalli, frá þeim tíma er þar var rekin eftirlitsstöð á vegum Bandaríkjahers. Þingsályktunartillaga um málið var lögð fram af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hún samþykkt í vikunni. Á Heiðarfjalli var ratsjárstöð tekin í notkun árið 1957 en starfsemi á fjallinu var lögð niður 13 árum síðar að því er fram kemur á vefsíðu Langanesbyggðar.

Samkvæmt ályktuninni verður gerð tímasett áætlun um kostnað og hreinsun á úrgangs- og spilliefnum, samhliða rannsókninni, þannig að tryggt verði að staða umverfis- og mengunarmála samræmist nútímakröfum. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra leggi áætlunina fram fyrir Alþingi eigi síðar en 15. mars árið 2022 og að sú vinna sem um ræðir fari fram í nánu samstarfi við landeigendur.

Leita til Bandaríkjastjórnar og Atlantshafsbandalagsins

Í greinargerð sem fylgdi tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir að á Heiðarfjalli sé að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu og að ætla mætti að hætta sé á mengun af völdum spilliefnanna. Eigendur jarðarinnar Eiðis í Heiðarfjalli, sem keyptu jörðina fyrir um hálfri öld, hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.

Auglýsing

Þá hafa eigendurnir átt í „viðræðum við fulltrúa framkvæmdarvaldsins á ýmsum tímum og einnig fulltrúa Bandaríkjastjórnar og Atlantshafsbandalagsins, auk þess að hafa leitað til dómstóla, án árangurs. Eftir stendur mengað landsvæði sem verður að hreinsa,“ líkt og segir í greinargerðinni.

Þar kemur fram að íslensk stjórnvöld hefðu afsalað sér fyrir hönd íslenska ríkisins og allra Íslendinga kröfum á hendur Bandaríkjunum vegna hugsanlegra landspjalla í tengslum við veru hersins á Heiðarfjalli. Þetta kom í ljós við afléttingu á skjalaleynd árið 1990 en samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins frá 1951 „skal Bandaríkjaher hreinsa úrgangsefni (e. „waste material“) við brottför sína eftir því sem kostur er (e. „to the extent practicable“).“

Að mati flutningsmanna tillögunnar hefur viðhorf til umhverfismála gjörbreyst frá því að samið var um viðskilnað hersins á svæðinu. „Bandaríkjaher og Atlantshafsbandalagið hafa ekki farið varhluta af þessari viðhorfsbreytingu og ekki síst þegar kemur að viðskilnaði á hernaðarsvæðum. Þannig hefur Atlantshafsbandalagið verið reiðubúið að veita styrki til rannsókna á mengun af völdum hernaðarumsvifa og Bandaríkjastjórn hefur fyrir sitt leyti tekist á hendur að hreinsa svæði eftir herstöðvar sínar eða fjármagna slíka hreinsun óháð samningsbundnum kvöðum,“ segir í greinargerðinni. Því sé nauðsynlegt að stjórnvöld hefji viðræður við Bandaríkjastjórn og Atlantshafsbandalagið um aðkomu að hreinsunarstarfi á fjallinu.

Ratsjárstöðin skemmdist í fárviðri 1961

Á vef Landhelgisgæslunnar segir að á árunum 1953 til 1958 hafi Bandaríkjaher hafið rekstur fjögurra ratsjárstöðva hér á landi. Auk stöðvarinnar sem reist var á Heiðarfjalli voru settar upp stöðvar á Miðnesheiði á Reykjanesi, á Stokksnesi við Hornafjörð og á Straumnesfjalli norðan Aðalvíkur á norðanverðum Vestfjörðum. Ratsjárstöðvarnar voru því hver á sínu horni landsins.

Tveimur ratsjárstöðvum var lokað snemma á 7. áratugnum, ratsjárstöðinni á Straumnesfjalli og ratsjárstöðinni á Heiðarfjalli. Starfsemi ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli var lögð niður eftir að hún skemmdist í fárviðri árið 1961 en hennar í stað var þar rekin fjarskiptastöð sjóhersins til ársins 1970.

Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Straumnesfjalli standa enn að mestu leyti ólíkt byggingum ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli sem búið er að jafna við jörðu. Hreinsun spilliefna fór fram á Straumnesfjalli á tíunda áratug síðustu aldar. Mynd: Grétar Þór Sigurðsson

Ráðist var í hreinsunarátak á Straumnesfjalli snemma á tíunda áratugnum með aðkomu bandaríska hersins. Þá var áhersla lögð á að öll spilliefni skyldu hreinsuð af fjallinu og var þá sérstaklega horft til blýs og rafgeyma sem orðið höfðu þar eftir, líkt og segir í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, frá árinu 2018. Vegna mikils kostnaðar var tekin ákvörðun um að byggingar ratsjárstöðvarinnar skyldu ekki rifnar.

Við upphaf níunda áratugarins jókst umferð óþekktra flugvéla í grennd við Ísland og ljóst varð að byggja þyrfti nýjar ratsjárstöðvar í stað þeirra sem hafði verið lokað á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Árið 1989 var ratsjárstöðin á Gunnólfsvíkurfjalli á sunnanverðu Langanesi tekin í notkun og árið 1992 tók ratsjárstöðin á Bolafjalli, ofan við Bolungarvík, til starfa.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Drangaskörð eru stórkostleg náttúrusmíð.
Skipuleggja frístundabyggð við ysta haf
Kríuvarp, sóleyjar og jökull. Eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði Vestfjarða og þótt víðar væri leitað. Þúsund ára menningarsaga. Á landnámsjörðinni Dröngum er fyrirhugað að reisa frístundabyggð. Drangar eru sömuleiðis í friðlýsingarferli að ósk eigenda.
Kjarninn 24. júní 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjari snýst hugur – og býður fram krafta sína fyrir næstu kosningar
„Eftir að hafa legið undir feldi á þriðju viku, kófsveittur og illa lyktandi hef ég ákveðið að þiggja sæti á listanum, ef það stendur þá enn til boða,“ segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira úr sama flokkiInnlent