Alls sóttu 282 aðilar um greiðsludreifingu á frestaðri skattgreiðslu og tryggingargjaldi upp á samtals 5,6 milljarða króna áður en fyrsti frestur til að sækja um þá dreifingu rann út um miðjan síðasta mánuð.
Í boði var að dreifa skuldinni í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur sem viðkomandi þarf að byrja að borga 1. júní 2022, eða eftir tæpt ár. Síðasta greiðslan sem þessir 282 aðilar þurfa að inna af hendi skilar sér svo í ríkissjóð í júní 2026.
Þetta kemur fram í svari skrifstofu ríkisskattstjóra við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Ein af fyrstu aðgerðunum sem íslensk stjórnvöld gripu til vegna efnahagslegra afleiðinga af kórónuveirufaraldinum var að veita fyrirtækjum í landinu frest á greiðslu á helmingi tryggingargjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda sem voru á gjalddaga í mars í fyrra. Þetta var ákveðið 12. mars, fjórum dögum áður en að eindagi þeirra gjalda átti að vera. Þeim eindaga var frestað um mánuð upphaflega, og síðar þangað til í janúar á næsta ári. Gert var ráð fyrir að þetta myndi seinka tekjum til ríkissjóðs upp á 22 milljarða króna.
Þessar forsendur gengu ekki eftir. Umfang frestaðra greiðslna var þvert á móti verið 19 milljarðar króna frá marsmánuði og út júlí á síðasta ári.
Borga staðgreiðslu og tryggingargjald sex árum síðar
Þegar kom að því að gera upp skuldina snemma árs 2021 var ákveðið að veita rýmri frest til að gera það. Í vor töldu stjórnvöld svo að það þyrfti að veita þeim aðilum sem þurftu á því að halda vegna rekstrarerfiðleika enn frekari fresti á því að standa skil á umræddum skattgreiðslum.
Lögin sem heimildin til að dreifa þeirri skuld við ríkissjóð til ársins 2026 byggir á voru samþykkt á Alþingi 11. maí síðastliðinn. Þau byggja á frumvarpi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram. Samkvæmt þeim gátu þau fyrirtæki sem uppfylltu ákveðin skilyrði, sem snúa aðallega að því að umsækjandi sé ekki í vanskilum með önnur opinber gjöld, fengið að fresta því í fjögur ár til viðbótar að gera upp upp skuldina.
Það þýðir að launagreiðendur sem áttu að skila skattgreiðslum af launum starfsmanna til ríkissjóðs í mars 2020 munu ekki þurfa að greiða síðustu greiðsluna af því vaxtalausa láni ríkissjóðs fyrr en rúmum sex árum síðar.
Leynd yfir því hverjir skipta greiðslum
Skatturinn hefur birt yfirlit yfir þau fyrirtæki sem hafa verið þiggjendur ýmissa úrræða sem stjórnvöld hafa boðið upp á vegna kórónuveirunnar. Dæmi um það eru þau fyrirtæki sem nýttu sér hlutabótaleiðina, uppsagnarstyrki, viðspyrnustyrki og tekjufallsstyrki.
Kjarninn kallaði eftir upplýsingum um hvaða aðilar hefðu sótt um og fengið að fresta greiðslum á staðgreiðslu og tryggingagjaldi í allt að sex ár, vaxtalaust. Þeirri beiðni var hafnað á grundvelli þess að gögnin falli undir sérstaka þagnarskyldu laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Starfsmönnum ríkisskattstjóra beri að halda þessum upplýsingum leyndum að viðlagðri refsiábyrgð. „Gögnin varða m.a. efnahag gjaldanda en upplýsingar um skuldastöðu falla undir framangreint ákvæði. Þar sem gögnin falla undir sérstaka þagnarskyldureglu[...]um innheimtu opinberra skatta og gjalda, taka upplýsingalög [...] ekki til þeirra. [...] Með vísan til þessa er beiðni þinni hafnað um að fá afhend framangreind gögn.“
Kjarninn fer nú yfir það hvort ákvörðunin verði kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.