Ríkir Bandaríkjamenn hafa að undanförnu flutt til Púertó Ríkó, eftir að hafa tekið tilboði stjórnvalda í landinu um að flytja lögheimili sitt til landsins. Þar býr fólkið í vellystingum og nýtur skattalegra fríðinda. Einn þeirra er Ben Eiler, 38 ára gamall verðbréfamiðlari, en í viðtali við Inc.com, segist hann njóta þess að búa í landinu og ekki síst njóta góða veðursins.
En af hverju að flytja til Púertó Ríkó frá Bandaríkjunum? Ástæðan er meðal annars lægri skattar en í Bandaríkjunum, í bland við ævintýramennsku. Þrátt fyrir að landið hafi búið við efnahagslegar þrengingar í meira en áratug, og atvinnuleysi mælist ríflega 13 prósent, þá hafa stjórnvöld freistað þess að ná til landsins ríku fólki sem er tilbúið að stofna til rekstrar og skapa þannig störf. Áætlun var hrint í framkvæmd árið 2012 sem miðaði að því að trekkja að vel stætt fólk, bjóða því góð skattaleg skilyrði - þar er lítinn sem engan tekjuskatt - og vonast til þess að það hafi góð áhrif á viðskiptin.
Að minnsta kosti 250 manns hafa flutt til Púerto Ríkó frá Bandaríkjunum síðan áætluninni var hrint í framkvæmd, og hafa viðskipti sem tengjast þessum hópi numið allt að 200 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 26 milljörðum króna, að því er fram kemur í umfjöllun Inc.com.
Púertó Ríkó er sérstakt sambandssvæði Bandaríkjanna, staðsett austan við Dóminíska lýðveldið og vestan við Jómfrúaeyjar í norðausturhluta Karíbahafs. Íbúum hefur fækkað þar um fimm prósent frá árinu 2010, en í byrjun árs í fyrra voru íbúarnir 3,5 milljónir manna.