Skúli Eggert Þórðarson, sem verið hefur ríkisendurskoðandi frá árinu 2018, hefur verið skipaður ráðuneytisstjóri nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis og hefur störf þann 1. febrúar.
Þetta kom fram í tilkynningu sem birtist á vef stjórnarráðsins í dag, en það er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra, sem skipar í embættið.
Í tilkynningunni segir að ákvörðun um flutning Skúla Eggerts í embætti ráðuneytisstjóra er tekin á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimild til flutnings embættismanna ríkisins milli starfa.
Skúli Eggert var kjörinn ríkisendurskoðandi af Alþingi árið 2018 og var fjórði einstaklingurinn til að gegna því embætti frá því að því var komið á fót árið 1987.
Kjör hans í embættið var til sex ára og því ljóst að finna þarf nýjan ríkisendurskoðanda fyrr en áætlað hafði verið.
Áður en Skúli Eggert var kjörinn ríkisendurskoðandi hafði hann verið ríkisskattstjóri frá 2007 til 2018 og þar áður skattrannsóknarstjóri frá árinu 1993. Áður hafði hann svo gegnt starfi vararíkisskattstjóra á árunum 1990-1993. Hann er fæddur árið 1953 og er lögfræðingur að mennt.
Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri matvælaráðuneytis
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands felur í sér að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið verður lagt niður nú um mánaðarmótin.
Verkefni þess munu færast að mestu í tvö ný ráðuneyti; menningar- og viðskiptaráðuneyti þar sem mætast málaflokkar menningar, viðskipta og ferðaþjónustu og matvælaráðuneyti með málaflokkum sjávarútvegs, fiskeldis, landbúnaðar, skógræktar og landgræðslu.
Þrír málaflokkar færast til annarra ráðuneyta, en orkumál verða í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og iðnaðar- og nýsköpunarmál í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
Benedikt Árnason, sem verið hefur ráðuneytisstjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins verður ráðuneytisstjóri í nýju matvælaráðuneyti, þar sem Svandís Svavarsdóttir er matvælaráðherra.