„Frekari gagnaöflun ákæruvaldsins eftir útgáfu ákærunnar leiddi til þess að ekki er unnt að útiloka að í meiri hluta tilvika hafi uppflettingarnar tengst starfi ákærða. Ákæruvaldið taldi málið því ekki lengur líklegt til sakfellis hvað þennan ákærulið varðar.“
Svo hljóðar yfirlýsing frá Ríkissaksóknara vegna ákvörðunar embættisins um að falla frá veigamesta ákæruliðnum í máli á hendur lögreglumanninum Gunnari Scheving Thorsteinssyni sem sakaður var um að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í málaskrá lögreglunnar í heimildaleysi. Um er að ræða LÖKE-málið svokallaða sem var töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum á sínum tíma. Kjarninn greindi fyrstur frá ákvörðun Ríkissaksóknara í dag.
Gunnar hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og lögmaður hans Garðar Steinn Ólafsson hefur gagnrýnt lögregluna á Suðurnesjum harðlega fyrir meðferð málsins og sakað embættið um að hafa vanrækt rannsókn þess. Sigríður Björk Guðjónsdóttir var þá lögreglustjóri á Suðurnesjum en forræði rannsóknarinnar var í höndum Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, þáverandi aðstoðarlögreglustjóra á Suðurnesjum. Alda Hrönn starfar nú við hlið Sigríðar Bjarkar sem aðstoðarlögreglustjóri hjá embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.
Í yfirlýsingu Ríkissaksóknara segir ennfremur: „Þau gögn sem lágu fyrir við útgáfu ákærunnar, að lokinni umfangsmikilli rannsókn, bentu eindregið til þess að lögreglumaðurinn sem um ræðir hefði flett upp nöfnum 41 konu í málaskrárkerfi lögreglunnar og skoðað þar upplýsingar um þær án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hans sem lögreglumanns, og þannig hefði hann misnotað stöðu sína í því skyni að afla sér upplýsinga um konurnar. Var þessi háttsemi talin varða við 139. gr. almennra hegningarlaga.“
Nú hefur sem sagt komið í ljós við nánari skoðun að ákæra málsins var byggð á veikum grunni.