Skattayfirvöld hafa krafið 365 miðla um 245 milljónir króna auk vaxta vegna endurálagningar opinberra gjalda fyrir árið 2009 til 2012. Þetta staðfestir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, í samtali við Kjarnann. Boðuð endurákvörðun snýst um niðurfellingu vaxta á lánum sem eru tilkomin vegna öfugs samruna Rauðsólar ehf. og 365 miðla þann 1. janúar 2009. 365 miðlar ætla að taka til varna í málinu. Í ársreikningi fyrirtækisins, sem var nýverið skilað inn til fyrirtækjaskráar, segir að tapist málið „getur það haft veruleg áhrif á eiginfjár- og langtímastöðu félagsins“.
Rauðsól, sem þá var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, keypti 365 miðla af 365 ehf. í nóvember 2008 á 1,5 milljarð króna og með yfirtöku á hluta af skuldum félagsins. Gamla 365 ehf., sem var endurnefnt Íslensk afþreying ehf., fór í þrot og kröfuhafar þess töpuðu 3,7 milljörðum króna.
Í dag er Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, aðaleigandi 365 miðla. Auk hennar munu fyrrum hluthafar fjarskiptafyrirtækisins Tals verða í hluthafahópnum ef samruni Tals og 365 miðla verður samþykktur af samkeppnisyfirvöldum. Á meðal óbeinna eigenda tals eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Öfugur samruni
Þann 3. apríl síðastliðinn sendi ríkisskattstjóri boðunarbréf til 365 miðla þar sem fram kom að fyrirtækinu hefði ekki verið heimilt að nýta sér skattalegt tap sem myndaðist hjá félaginu Rauðsól ehf. áður en það sameinaðist 365 miðlum, frá skattgreiðslum. Í ársreikningi 365 miðla segir að „vaxtagjöld lána, sem tekin voru til að kaupa eignarhlut í dótturfélaginu 365 miðlum ehf., af Rauðsól og nýtt hafa verið til frádráttar sköttum hjá sameinuðu félagi og hafa myndað yfirfæranlegt tap, nema 1.908 millj. kr.“ Sú upphæð er stofnin sem ætluð skuld 365 miðla reiknast af. Tapi 365 miðlar málinu mun fyrirtækið þurfa að greiða 245 milljónir króna í vangoldna skatta auk vaxta.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í Toyota-málinu að vaxtagjöld félaga sem hafi gengið í gegnum öfugan samruna séu ekki frádráttarbær frá skatti.
Endurálagningin byggir á túlkun skattayfirvalda á því hvað megi gera þegar svokallaðir öfugir samrunar eiga sér stað. Þá kaupir félag, í þessu tilfelli Rauðsól ehf., rekstrarfélag með skuldsetri yfirtöku, sameinar síðan félögin tvö. Rekstarfélagið er þá farið að greiða skuldirnar sem stofnað var til þegar það var keypt. Þetta kallast öfugur samruni.
Mörg fyrirtæki á Íslandi hafa litið svo á að við slíka sameiningu séu vaxtagjöld af lánunum sem tekin voru vegna svona samruna séu frádráttarbær frá skatti. Skattayfirvöld hafa verið þessu ósammála og Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu í Toyota-málinu svokallaða að skilningur þeirra sé réttur. Í því máli reyndi Toyota á Íslandi að fá endurálagningu skattayfirvalda hnekkt fyrir dómi, en Hæstiréttur sýknaði íslenska ríkið. Skúli Eggert Þórðason, ríkisskattstjóri, hefur sagt í fjölmiðlum að hann líti á dóminn sem fordæmisgefandi og að hann gæti haft áhrif á mörg íslensk fyrirtæki sem hefðu farið í gegnum öfugan samruna. Húsasmiðjan hefur til að mynda þegar greitt um 700 milljónir króna vegna þessam búið er að enduráleggja 1,3 milljarða króna á Icelandair Group, einn milljarð króna á Ölgerðina og um 2,5 milljarða króna á Skipti/Símann.
Veruleg áhrif á langtímastöðu tapist málið
Eitt slíkt fyrirtæki til viðbótar er 365 miðlar. Það hefur nýtt sér skattalegt tap sem myndaðist hjá Rauðsól ehf. og dregið vaxtagjöld af lánum sem notuð voru til að kaupa fjölmiðla 365 í nóvember 2008 frá skattgreiðslum. Ríkisskattstjóri telur fyrirtækið skulda 245 milljonir króna í skatta vegna þessa.
Í ársreikningi 365 segir að „félagið hefur ekkert gjaldfært í rekstrarreikningi vegna þessa og hefur haldið uppi vörnum í málinu, enda telja stjórnendur þess að atvik séu með öllu ósambærileg og í fyrrnefndu dómsmáli [Toyota-málinu]. Röksemdir stjórnenda byggja á áliti ytri sérfræðinga. Óvissa er því hvort félaginu hafi verið heimilt að draga vaxtagjöldin frá skattskyldum tekjum sínum.Tapist málið getur það haft veruleg áhrif á eiginfjár- og langtímastöðu félagsins“.
Góður rekstur undanfarin ár en miklar skuldir
Rekstur 365 miðla hefur gengið vel á undanförnum árum. Velta félagsins í fyrra var um 10,4 milljarðar króna og hafnaður 746 milljónir króna. Árið áður var hagnaðurinn 305 milljónir króna og árin tvö á undan því skiluðu um 600 milljónum krónum samtals í hagnað.
Þrátt fyrir gott gengi er 365 miðlar en mjög skuldsett félag. Skuldir þess hækkuðu umtalsvert á milli áranna 2012 og 2013 og voru 7,9 milljarðar króna um síðustu áramót. Eignir félagsins eru hins vegar metnar á 11,2 milljarða króna. Þar munar langmest um óefnislegar eignir upp á 6,2 milljarða króna. Samkvæmt ársreikningi var eigið fé félagsins 3,3 milljarðar króna um síðustu áramót.