Á fundi með forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) viðruðu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hugmyndir sem ríkisstjórnin getur lagt til í þá erfiðu stöðu sem er í kjaradeilum á vinnumarkaði. Á fundinum voru nefndar hugmyndir um að hækka persónuafslátt í 65 þúsund krónur og að fækka skattþrepunum úr þremur í tvö. Þetta er haft eftir Olafíu B. Rafnsdóttur, formanns VR og annars varaformanns ASÍ, í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Þorsteinn Viglundsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, að ríkisstjórnin hafa með þessu sýnt vilja til að liðka fyrir kjaraviðræðum en að formlegar tillögur þurfi að koma fram fyrir vikulok. „Það er einfaldlega komið að þeim tímapunkti í viðræðum að það þarf að koma skýrt fram hvað ríkisstjórnin e reiðubúin að gera.“
Verðbólga verður minni vegna verkfalla
Í Morgunblaðinu er einnig greint frá því að verðbólga í maí gæti mælst minni en ella vegna þess að verðbólguáhrifa hækkandi húsnæðisverðs mun ekki gæta að fullu. Ástæðan er sú að félagsmenn BHM sem starfa hjá Sýslumanninum í Reykjavík eru í verkfalli og því hafi sárafáum kaupsamningum vegna húsnæðis verið þinglýst í apríl.
Húsnæðisliðurinn er hluti af vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu á Íslandi, og hann hefur verið ráðandi í hækkunum vísitölunnar undanfarið. Án hans hefði verið verðhjöðnun á Íslandi suma síðustu mánuði.
Raunverð húsnæðis hefur hækkað hratt undanfarin misseri og greiningardeildir bankanna spá því að sú skarpa hækkun haldi áfram út þetta ár hið minnsta. „Út frá því má leiða líkur að því að tafir á birtingu upplýsinga um nýja samninga hafi í för með sér að fasteignaverð sé vanmetið í húsnæðisliðnum,“ segir í Morgunblaðinu.
Nýjar verðbólgutölur Hagstofunnar verð birtar 28. maí næstkomandi.