Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins segir að Ísland sé eitt ríkasta samfélag í heimi og það sé ríkisstjórninni til háborinnar skammar að hafa þúsundir barna í fátækt.
Þetta kom fram í máli hans undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Nefndi hann að á málþingi Velferðarsjóðs barna um barnafátækt í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar um liðna helgi hefði komið fram sú spurning hvort Íslendingar hefðu yfir höfuð efni á því að hafa börn í fátækt.
Skólamáltíðir, leikskólar, tannréttingar, fótboltaæfingar og tónlistarnám ætti að vera gjaldfrjálst
„Spurningarnar voru um hvort eðlilegt væru að rukka börn fyrir skólamáltíðir, leikskóla, tannréttingar, fótboltaæfingar eða tónlistarnám. Auðvitað á þetta allt að vera gjaldfrjálst fyrir börnin og foreldra þeirra sem eiga auðvitað að fá þau laun og/eða lífeyrislaun sem eru mannsæmandi og vel yfir fátæktarmörkum.
Við erum eitt ríkasta samfélag í heimi og það er ríkisstjórninni til háborinnar skammar að hafa þúsundir barna í fátækt. Súlurit, kökurit, línurit, endalausar tölur um velferðar- og heilbrigðiskerfið verður að stöðva strax og sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að engin fjölskylda á Íslandi lifi undir fátæktarmörkum, hvað þá við sárafátækt. Að barn fái ekki læknisþjónustu og bíði svo mánuðum eða árum skiptir á biðlista á ekki að eiga sér stað í siðmenntuðu samfélagi þar sem mannréttindi eiga að vera í fyrirrúmi,“ sagði hann.
Guðmundur Ingi vísaði í orð talsmanna ríkisstjórnarinnar að þeir sem búa til fátækt væru svo fáir. „Hvers vegna gera þeir þá ekkert? Er í lagi að börn séu líkamlega, andlega og félagslega svelt, bara af því að þau eru svo fá? Þetta eru þúsundir barna. Er eðlilegt að skerða barnabætur við lægstu lífeyrislaun frá Tryggingastofnun ríkisins sem eru vel undir fátæktarmörkum? Hvers vegna? Heldur ríkisstjórnin að með því komi hún í veg fyrir að fátækt fólk eignist börn? Á þetta að vera fælingarmáttur? Jaðarsett fjölskylda með börn úti í horni velferðar- og heilbrigðiskerfisins er okkur hér á Íslandi til háborinnar skammar,“ sagði hann að lokum.