Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata og nefndarmaður í undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréf segir að sér heyrist það vera ríkjandi skoðun hjá meirihluta nefndarmanna að seinni talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi skuli gilda.
Reikna má með að nefndin ljúki vinnu sinni fyrir helgi, eftir að hafa verið að störfum frá því í upphafi októbermánaðar.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins á sæti í nefndinni rétt eins og Björn Leví og hún sagði við Kastljós í gærkvöldi að hún sæi ekkert annað í stöðunni en að önnur talning yrði tekin gild. „Eins og mín staða er akkúrat núna þá sé ég ekkert annað í kortinu, ekki neitt,“ sagði Inga í Kastljósi, en fulltrúar í undirbrúningskjörbréfanefnd hafa ekki tjáð sig með svo afgerandi hætti um skoðanir sínar á málavöxtum fram til þessa.
Þessa skoðun ítrekaði Inga í samtali við mbl.is í dag, engin ástæða væri til að grípa til uppkosningar.
Spurður hvort hann telji það viðhorf sem kom fram hjá Ingu, að fátt komi í veg fyrir að svokölluð seinni talning atkvæðanna í Borgarnesi verði látin gilda, sé ríkjandi hjá meirihluta nefndarmanna svarar Björn Leví því til að já, það sé hans mat.
Þetta segir hann þó ekki vera einróma álit nefndarmanna, en að línurnar liggi á þessum slóðum sem sem stendur. „Að meðaltali er skoðunin nær seinni talningunni, en allir eru með fyrirvara um að skoðun sín geti breyst,“ segir Björn Leví og leggur áherslu á hið síðarnefnda.
„Við getum ennþá skipt um skoðun fram á síðustu stundu og Inga sagði það nú sjálf í Kastljósinu í gær að ef það kæmi fram eitthvað stjarnfræðilegt gæti þetta breyst, en ég held að línurnar séu dálítið þar núna,“ segir Björn Leví og vísar þá til þess að meirihluti nefndarinnar hallist frekar að því að mæla með því að seinni talningin gildi.
Sjálfur segist Björn Leví ekki vera á þeirri skoðun. Hann segir ekki alveg ljóst hvernig þeir nefndarmenn sem ekki verða sammála meirihlutanum muni koma þeirri skoðun sinni á framfæri við þingið, en undirbúningsnefndin er ekki að fara að skila hefðbundnum meirihluta- og minnihlutaálitum til þingsins, heldur verður lokaafurð nefndarinnar í formi skýrslu sem lögð verður fyrir kjörbréfanefnd.
Undirbúningsnefndin á samkvæmt verklagsreglum sínum að nálgast verkefni sitt og þar með talið tillögugerð á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og lögfræðilegs mats. Vinna nefndarinnar er þó hvorki bindandi fyrir kjörbréfanefnd né þingmenn, sem hafa að endingu það stjórnarskrárbundna hlutverk að skera úr um hvort að þeir og samþingmenn þeirra séu löglega kosnir.