Á síðustu níu árum – frá byrjun árs 2012 og til síðustu áramóta – hefur eigið fé allra landsmanna, eignir þeirra þegar skuldir hafa verið dregnar frá, aukist um 3.442 milljarða króna. Af þeim nýja auð sem orðið hefur til hefur þriðjungur farið til þess hluta landsmanna sem tilheyrir þeim fimm prósent hópi sem hefur mestar tekjur á hverju ári. Í fyrra taldi sá hópur tólf þúsund fjölskyldur. Um er að ræða 1.133 milljarða króna.
Ríkasta eitt prósent landsmanna, um 2.400 fjölskyldur, tóku til sín rúmlega 13 prósent af öllum nýju eigin fé sem varð til á tímabilinu og juku auð sinn um 459 milljarða króna.
Þær 240 fjölskyldur sem mest eiga á Íslandi, og mynda 0,1 prósent ríkasta hluta þjóðarinnar, hafa tekið til sín fjögur prósent af öllum nýjum auði sem orðið hefur til frá byrjun árs 2012, samtals 138 milljarða króna.
Þetta má lesa úr nýbirtum tölum um eignir og tekjur landsmanna árið 2020 sem komu fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar um málið.
Tóku stærri bita af minni köku
Líkt og Kjarninn greindi frá í fréttaskýringu á fimmtudag þá dróst vöxtur á eigin fé landsmanna umtalsvert saman miðað við árin á undan. Sá vöxtur var mestur árið 2017, þegar 760 milljarðar króna bættust við eigið fé landsmanna, og 2018, þegar milljarðarnir voru 641. Það eru mestu hagsældarár í sögu þjóðarinnar. Meðaltalshækkun frá byrjun árs 2011 og út árið 2019 var 401 milljarður króna á ári.
Í fyrra varð breyting á, og við bættust einungis 122 milljarðar króna. Það er minnsta aukning á eigin fé innan árs sem orðið hefur hérlendis í meira en áratug.
Því sýna tölurnar að þessir hópar tóku til sín hærra hlutfall af nýjum auð í fyrra en þeir gerðu þegar hagkerfið óx sem mest, og allir hinir landsmenn tóku þar af leiðandi til sín lægra hlutfall.
Verðbréf vanmetin og lífeyrissjóðseignir ekki taldar með
Vert er að taka fram að í ofangreindum tölum eru ákveðin verðbréf metin á nafnvirði, sem er langt undir markaðsvirði þeirra. Meginþorri verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga tilheyra þeim tíu prósentum landsmanna sem eru ríkastir. Sá hópur átti 86 prósent allra verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga í lok árs 2019.
Því eru eignir, og þar af leiðandi eigið fé, þessa hóps verulega vanmetnar í ofangreindum tölum.
Sömuleiðis þarf að benda á að eignir fólks í lífeyrissjóðum eru ekki inni í þessum tölum, en lífeyrissjóðakerfið á yfir sex þúsund milljarða króna.