Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV, segist aldrei hafa upplifað annað eins áreiti á ferli sínum í blaðamennsku og í kjölfar þess að miðillinn birti frétt um aðkomu Jakobs Frímanns Magnússonar, oddvita Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, að því að útvega barni svokallað liprunarbréf frá utanríkisráðuneytinu, svo barnið gæti farið úr landi í mars í fyrra.
Hann gagnrýnir Ásthildi Lóu Þórsdóttur frambjóðanda Flokks fólksins harðlega, í svari til hennar í gegnum aðgang DV á Facebook, og segir raunar að hún sýni af sér dómgreindarleysi sem sýni fram á að það yrði „stórslys fyrir lýðræðið“ ef hún næði kjöri til Alþingis.
Fram kom í frétt DV fyrr í vikunni að móðir barnsins, sem væri forsjáraðili þess, teldi að Jakob Frímann hefði misnotað stöðu sína sem fyrrverandi starfsmaður ráðuneytisins og þjóðþekktur einstaklingur til að koma barninu til föðurins, sem er búsettur erlendis, með blekkingum. Auk þess, að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu væri að skoða málið.
Í beiðni sinni til utanríkisráðuneytisins sagði Jakob Frímann meðal annars að barnið væri í „fjölskyldunni“ en barnið tengist honum þó engum fjölskylduböndum, heldur er Jakob Frímann vinur föðurins, sem býr erlendis.
Utanríkisráðuneytið afturkallaði síðar liprunarbréfið og hefur beðið móður barnsins afsökunar á því að hafa ekki kannað sannleiksgildi þess að móðirin væri samþykk för barnsins, en því hélt Jakob Frímann fram í beiðni sinni til ráðuneytisins.
Ekki komst upp um aðkomu Jakobs Frímanns að málinu fyrr en móðurfjölskyldan átti fund með ráðuneytinu og fór fram á að fá öll gögn málsins afhent.
Þau gögn sýna að tillaga Jakobs Frímanns að texta liprunarbréfsins var afrituð orðrétt yfir á bréfsefni ráðuneytisins af hálfu starfsmanna utanríkisþjónustunnar, en liprunarbréf sem þessi hafa verið gefin út til þess að liðka fyrir ferðum fólks á milli landa á tímum COVID-19, en í mars í fyrra voru lönd óðum að loka sig af til þess að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar og sýna þurfti fram á nauðsyn ferðalaga.
Ritstjórinn segir frambjóðandann mislesa skjáskot
Ásta Lóa Þórsdóttir, sem er oddviti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi, fullyrti í svari sínu á Facebook við frétt DV í gær að miðillinn væri að sleppa lykilatriði úr fréttinni, sem væri það að móðirin hefði verið samþykk því að barnið færi úr landi. Vísar hún til þess að hafa fengið að sjá skjáskot um hið sama.
Óhætt er að segja að ritstjóri DV hafi svarað þessum aðfinnslum og öðrum sem Ásta Lóa gerir við fréttaflutning DV fullum hálsi í morgun, í nafni fjölmiðilsins. Hvað varðar samþykki móðurinnar segir ritstjórinn að Jakob Frímann hafi sent miðlinum skjáskot, sem sé væntanlega það sama og Ásta Lóa hafi fengið að sjá.
„Þar kemur fram að samþykki lá fyrir um ferð barnanna til föður síns þann 6.apríl (og mögulega fyrr ef aðstæður leyfðu og í því samhengi var minnst á 1.apríl þó ekkert væri ákveðið). Þetta teljið þið flokksfélagarnir sem samþykki fyrir skyndilegri ferð út þann 19.mars án vitundar móður- 2-3 vikum fyrr. Mér hrýs hugur við þeirri tilhugsun að fólk með slíkar takmarkanir í lesskilningi sé að sækjast eftir sæti á Alþingi og reyna að túlka og bæta viðkvæma lagatexta,“ segir ritstjórinn í svari sínu til frambjóðandans.
Í svari sínu segir ritstjórinn einnig að fréttin snúist um „inngrip þjóðþekkts manns með tengsl við ráðuneyti sem fékk flýtiafgreiðslu innan stjórnsýslunnar“ sem ekki sé í boði fyrir almenna borgara, „án þess að reynt væri með nokkrum hætti að sannreyna þær upplýsingar sem hann lagði fram.“
„Þetta er áfellisdómur yfir stjórnsýslunni enda endaði málið með þeim fordæmalausa hætti að ráðuneytið baðst afsökunar á vinnubrögðum sínum. Flokksfélagi þinn fékk tvo sólarhringa til að útskýra sína aðkomu og í stað þess að viðurkenna mistök og mögulega einhverskonar fljótfærni eða misskilning hófst herferð til að þagga fréttina niður og áreiti sem að á sér ekki hliðstæðu á ferli mínum sem blaðamaður. Enn er síðan haldið áfram að reyna að gera lítið úr fréttinni með rangfærslum,“ segir ritstjórinn í svari sínu.
Snúist ekki um sorglega forsjárdeiluna
Björn segir einnig að DV hafi eftir fremsta megni reynt að láta fréttina snúast um stjórnsýsluna og inngrip Jakobs, „frekar en hina sorglegu forsjárdeilu sem er ekki okkar að leysa“.
Hann gagnrýnir síðan frambjóðandann fyrir að hika ekki við, „í aumkunarverðri tilraun til að skríða inn á þing, að gaspra um þetta mál og draga ályktanir án þess að vita neitt um málið annað en að hafa séð skjáskot/tölvupóstinn hér fyrir neðan. Í stað þess að hafa hugrekki til þess að takast á við mistök frambjóðenda, reyna að útskýra þau með hreinskiptum hætti og axla ábyrgð, þá farið þið í vörn og reynið í þokkabót að ráðast á trúverðugleika fjölmiðils sem reynir að sinna skyldum sínum,“ segir ritstjórinn.
Björn bætir því við að það sé „beinlínis ógnverkjandi“ að hugsa til þess „hvernig Flokkur fólksins og liðsmenn hans myndu hegða sér ef þið kæmust einhvern tímann í áhrifastöðu og væruð að sýsla með þjóðhagslega mikilvæg mál.“
„Þú ættir að skammast þín Ásta Lóa Þórsdóttir að láta nota þig með þessum hætti til að reyna að verja flokkinn og það dómgreindarleysi sýnir svart á hvítu að þú átt ekkert erindi inn á þing. Í rauninni væri það stórslys fyrir lýðræðið,“ segir ritstjórinn.
Ásta Lóa telur ritstjórann reiða hátt til höggs
Ásta Lóa hefur svarað þessum orðum ritstjórans og segir hann reiða hátt til höggs með ummælum sínum um sig. „Finnst þér þetta orðalag þér sæmandi sem ritstjóra?“ spyr frambjóðandinn meðal annars.
Hún segist ekki skilja hvers vegna DV kaus að slá málinu upp með þeim hætti sem miðillinn gerði og segir málið hafa verið látið snúast um „mann sem var að reyna að hjálpa.“
Frambjóðandinn segir ennfremur að Jakob Frímann hafi verið í „góðri trú að hjálpa bæði foreldrum og barni“ og að dagsetningar flugmiða barnsins úr landi hafi væntanlega ekki verið á hans könnu.
Hún lætur þess þó hvergi getið að Jakob hafi í bréfi sínu til ráðuneytisins látið að því liggja að barnið væri í fjölskyldu hans, sem er ekki rétt.
„Ég hef í því sem ég hef skrifað lagt áherslu á að Jakob hafi verið í góðri trú og ég forðast að fjalla um málið að öðru leyti. Ég stend við það. Komi annað í ljós mun ég þurfa að endurskoða minn málflutning, en almennt, og ekki síst þegar fólk sýnir hjálpsemi í góðri trú, á að að leyfa því að njóta vafans, þar til sekt þess er sönnuð,“ segir Ásta Lóa í svari sínu til ritstjórans.
Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum Ásthildar Lóu við svari Björns.