Beðin um að fara ekki og laga skemmdir vegna utanvegaaksturs

Marga jeppamenn langar að fara og laga skemmdir sem unnar voru með utanvegaakstri í Vonarskarði. Þjóðgarðsvörður ítrekar að um vettvang rannsóknar sé að ræða og að ekki megi hreyfa við honum að svo stöddu.

Spjöll vegna utanvegaakstursins í Vonarskarði.
Spjöll vegna utanvegaakstursins í Vonarskarði.
Auglýsing

„Málið er í rannsókn hjá okkur. Við erum að skoða þau gögn sem við höfum en mér þykir ólíklegt að við förum á vettvang,“ segir Sveinn Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, spurður um kæru Vatnajökulsþjóðgarðs vegna utanvegaaksturs í Vonarskarði í lok ágúst. Hann segir að þjóðgarðurinn hafi afhent góðar myndir af verksummerkjum en viðurkennir að rannsókn á utanvegaakstri á hálendi Íslands, þar sem engum eftirlitsmyndavélum er til dæmis til að dreifa, geti verið snúin. Hann óskar því hér með eftir því að þeir sem mögulega hafi einhverjar upplýsingar um hverjir voru þarna að verki, að minnsta kosti fólk á þremur jeppum að mati þjóðgarðsins, láti lögregluna á Suðurlandi vita.

Vonarskarð er á mörkum tveggja lögregluumdæma, lögreglunnar á Suðurlandi og lögreglunnar á Norðurlandi. Í byrjun mánaðarins uppgötvuðust spjöll í skarðinu sem er lokað fyrir bílaumferð. Þar höfðu bílar farið um, að hluta um gamlan slóða en einnig ekið á merktri gönguleið og utan hennar. Ekið var yfir gróðurvinjar svo djúp för urðu í mosa og öðrum viðkvæmum gróðri. Að auki hafa bílstjórarnir spólað í brekku svo hún „líkist helst sandgryfju,“ eins og Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði sagði við Kjarnann fyrr í vikunni. Um leið og utanvegaaksturinn uppgötvaðist var málið kært til lögreglunnar á Suðurlandi.

Að auki hafa tvenn náttúruverndarsamtök, Náttúrugrið og Skrauti, lagt fram kæru vegna „refsiverðra spjalla, rasks og aksturs utan vega í Vonarskarði í Vatnajökulsþjóðgarði,“ líkt og það er orðað, í bréfi sem sent var lögregluembættunum í gær.

Auglýsing

Í kærunni, sem Kjarninn hefur undir höndum, er farið fram á að opinber rannsókn fari fram á utanvegaakstrinum „sem feli í sér refsiverða háttsemi, sem ekki á sér nokkurn sinn líkan í viðkvæmum, óbyggðum víðernum í Vonarskarði“. Brotin séu gróf og gerð af ásetningi og af þeim hafi hlotist mikið og varanlegt tjón. Benda samtökin á að þau geti varðað allt að fjögurra ára fangelsi.

Ekið var yfir lækjarsytrur í Vonarskarði. Mynd: Vatnajökulsþjóðgarður

Fara samtökin þess á leit að sú opinbera rannsókn sem hófst með tilkynningu þjóðgarðsins njóti „algers forgangs“ hjá lögreglunni. Er í því sambandi á það bent að landvörslu hafi verið hætt á svæðinu í gær. Næsta víst sé að vettvangur spillist með óafturkræfum hætti, verði hann ekki tryggður fyrir helgina, „en nokkrir hópar jeppamanna hafa, samkvæmt því sem umbjóðendur mínir hafa upplýst, hvatt til hópamyndunar og ferða á vettvang nú um helgina á samfélagsmiðlum,“ segir í bréfi lögmanns náttúruverndarsamtakanna.

Fanney segist hafa fengið veður af umræðu um að hópur fólks hafi ætlað að fara í Vonarskarð og laga ummerkin. Slíkt væri alls ekki í samráði við þjóðgarðsyfirvöld. „Ég hafði samband við fulltrúa SAMÚT [Samtaka útivistarfélaga] í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og hann sagði að aðeins stæði til að fara til að skoða ummerki og taka myndir.“

Fanney benti honum á að um rannsóknarvettvang væri að ræða „og það væri vægast sagt varhugavert að gera sér sérstaka ferð þangað áður en lögregla hefði lokið rannsókn – og að sjálfsögðu mætti ekki hreyfa við vettvangi“.

Sá sem er fulltrúi SAMÚT í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs heitir Snorri Ingimarsson. Hann segir það rétt að marga langi að fara og laga skemmdirnar. „Því að okkur svíður eins og öðrum þegar það eru skemmdir á náttúrunni. Ég hef verið í sambandi við þjóðgarðsvörð og hún telur það ekki tímabært, hún telur að þetta verði mikið til horfið það sem er í sandi næsta sumar og svo er þetta náttúrlega í rannsókn hjá lögreglu og ekki rétt að hrófla við neinum förum eða slíku. En það er ekkert útilokað að einhverjir af okkur fari upp eftir og fari varlega og skoði umfangið á þessum skemmdum með eigin augum. Svo erum við einnig með í bígerð að fljúga þarna yfir.“

Þeir sem óku um skarðið reistu margar litlar vörður til að merkja leiðina sem þeir óku. Mynd: Vatnajökulsþjóðgarður

Hann segir hópinn þó engar fyrirætlanir hafa um að grípa fram fyrir hendurnar á lögreglu eða þjóðgarðsverði.

Fanney sagði í samtali við Kjarnann að í hennar huga undirstriki spjöllin sem voru unnin í ágúst nauðsyn á lokun vegaslóðana um Vonarskarð. Snorri er á öndverðum meiði. „Við teljum að ef stikaðri ökuleið hefði verið haldið opinni þá hefði þetta tjón ekki orðið á náttúrunni. Við teljum það liggja alveg ljóst fyrir að þetta sýni okkur að það að loka svæðinu fyrir umferð, það fríaði okkur ekki frá þessu tjóni í náttúrunni. Þetta er víðfeðmt svæði. Þar sem gamla ökuleiðin liggur er engin hætta á skemmdum, hún liggur meira að segja að hluta til á gömlum varnargörðum frá Landsvirkjun og bara um örfoka sanda og mela.“

Hann segir önnur svæði í Vonarskarði vera viðkvæm „og það merkilega er að þegar Vatnajökulsþjóðgarður bannaði okkur að aka þarna þá urðu allir sem fara skarðið að ganga um miklu viðkvæmara svæði.“ Með því að loka svæðinu fyrir umferð bíla, líkt og gert var árið 2011, hafi „aðgengi verið lágmarkað en álagið hámarkað um leið“. Þetta sýni hvað málefni Vonarskarðs eru komin í miklar ógöngur. „Að fólk skuli ekki bara viðurkenna þetta og leiðrétta þessa lokun sem margir telja hafa verið mistök.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Loðfílar hafa veirð útdauðir í um tíu þúsund ár.
Ætla sér að koma loðfílum á legg innan sex ára
Fyrirtækið Colossal segir loðfíla geta reynst vel í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætla sér að búa þá til með því að blanda erfðaefni þeirra við frumur Asíufíls. Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins.
Kjarninn 18. september 2021
Meira úr sama flokki