Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar mun láta af störfum um næstu áramót, að því er fram kemur í svari hans við fyrirspurn Kjarnans.
Hann var ráðinn til þriggja mánaða í stöðu upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar í mars 2020 en hann hóf störf 1. apríl sama ár. Róbert er því búinn að vera 21 mánuð í starfi en hann átti að sinna því „rétt á meðan COVID-19 gengi yfir“.
„Ég bjóst ekki við að mæta aftur til vinnu eftir kosningar, fór í langt frí og var búinn að kveðja alla hér, en svo kom þetta furðulegasta pólitíska haust allra tíma og ég hef sinnt mínum verkefnum á meðan. Þakklátur fyrir dýrmæta reynslu með frábærum vinnufélögum en líka frelsinu feginn,“ segir hann í svari til Kjarnans.
Aðspurður hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur segir Róbert að hann ætli að fara að gera það sem hann gerði áður: Í fjallaleiðsögn ásamt útivistartengdri dagskrárgerð og fjölmiðlun.