Heimsfaraldurinn hefur orðið til þess að margir starfsmenn í Bandaríkjunum hafi áttað sig á lélegri stöðu sinni á vinnumarkaði og sagt upp starfi sínu, en fjöldi uppsagna þykir merki um að starfsfólk sé nú öruggara um stöðu sína á vinnumarkaði. Þetta skrifar Katrín Ólafsdóttir, vinnumarkaðshagfræðingur og dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Faraldurinn vakti fólk til umhugsunar
Samkvæmt Katrínu leiðir starfsfólk almennt ekki endilega hugann að eigin kjörum nema að einhver ytri atburður verði til að hreyfa við því. Vísbendingar eru uppi um að kórónuveirufaraldurinn hafi einmitt verið slíkur atburður og hafi leitt til þess að starfsfólk hafi skoðað atvinnumöguleika sína, sem það hefði annars ekki gert.
Óvenjumikið hefur verið um uppsagnir síðustu mánuði í Bandaríkjunum, meira en fyrir faraldurinn. Sér í lagi hafi uppsagnirnar aukist í atvinnugreinum þar sem veitt er persónuleg þjónusta, eins og á veitingastöðum, hótelum og í verslun. Auk þess segir Katrín að einnig hafi gætt uppsagna á öðrum vinnustöðum þar sem fólk vinnur í nánu samneyti og hópsmit gætu auðveldlega átt sér stað.
Endurskoðun á lélegum aðstæðum
Katrín segir kjör starfsfólks í Bandaríkjunum almennt vera verri en í Evrópu, þar sem lítill réttur er til orlofs, bæði vegna fæðinga og veikinda. Þá séu sjúkratryggingar að jafnaði tengdar vinnustað og hefur fólk í hlutastörfum, auk atvinnulausra, því yfirleitt enga sjúkratryggingu.
„Faraldurinn hefur því orðið til þess að margir hafa áttað sig á lélegri stöðu sinni á vinnumarkaði og í kjölfarið endurskoðað hana,“ segir Katrín í greininni sinni. „Margir þeirra sem sendir voru heim til að vinna njóta samvistanna með fjölskyldunni og vilja vinna þar áfram eða vinna styttri vinnudag.“
Rödd starfsfólksins styrkist
Samhliða þessum uppsögnum segir Katrín að staða launþega á vinnumarkaði vestanhafs hafi styrkst, en verkföll þar á síðustu árum hafa ekki verið tíðari í Bandaríkjunum í þrjá áratugi. Þar nefnir hún nýleg dæmi um verkfallsboðanir hjá starfsfólki morgunkornaframleiðandans Kellogg, vinnuvélaframleiðandans John Deeree, starfsfólki í leikhúsum og heilbrigðisstarfsfólki hjá Kaiser Permanente.
Samkvæmt Katrínu hefur hlutur stéttarfélaga venjulega minnkað og hlutur íhlaupastarfa aukist í kjölfar efnahagsáfalla. „Í þetta sinn er útlit fyrir að vinnumarkaður breytist enn að nýju, en í þetta sinn virðist rödd starfsfólks vera að styrkjast og mögulegt er að þróunin verði í þá átt að réttindi og laun starfsfólks muni batna,“ bætir hún við.
Hægt er að lesa grein Katrínar í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.