Rögnunefndin, stýrihópur ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group sem hafði það markmið að kanna og meta nokkra staði fyrir nýjan innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu, telur að hagkvæmast sé að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni, sem er á mörkum Hafnarfjarðar og Voga. Nefndin leggur til að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum og að samhliða verði náð samkomulagi um rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt á meðan að nauðsynlegur undirbúningur og, eftir atvikum, framkvæmdir fara fram.
Verði farið eftir þessum tilmælum er ljóst að innanlandsflug mun hverfa úr Vatnsmýrinni.
Í stýrihópnum sitja Ragna Árnadóttir formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrir hönd ríkisins, Matthías Sveinbjörnsson fyrir hönd Icelandair og Dagur B. Eggertsson fyrir Reykjavíkurborg. Verkefnisstjóri er Þorsteinn R. Hermannsson hjá Mannviti.
Kostar 22 milljarða og er ódýrasti kosturinn
Könnun stýrihópsins beindist að fjórum nýjum flugvallarstæðum. Þau eru Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun og Löngusker. Þá skoðaði stýrihópurinn einnig breyttar útfærslur á legu flugbrauta í Vatnsmýri. Aflað var margvíslegra gagna sem ekki hefur verið aflað áður, meðal annars um veðurfar, rými fyrir flugvöll, flugtækni, umhverfismál og stofnkostnað.
Í niðurstöðum hópsins segir meðal annars að nothæfisstuðull í Hvassahrauni sé 96,4 til 97,2 prósent fyrir tvær flugbrautir og 99,6 prósent fyrir þrjár flugbrautir. „Áætlaður stofnkostnaður flugvallar og bygginga sem tækju við allri starfsemi Reykjavíkurflugvallar er um 22 milljarðar króna sem er jafnframt ódýrasti kosturinn.“
Í máli Þorsteins á blaðamannafundi um málið sem nú stendur yfir kom fram að nefndin fékk slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu til að kanna lengd sjúkraflutninga frá Hvassahrauni. Niðurstaðan var sú að flutningstími lengdist um átta og hálfa til tólf og hálfa mínútu, á spítalann í Fossvogi og við Hringbraut.
Breytingar í Vatnsmýri jafngilda að byggja nýjan flugvöll
Í skýrslunni kemur fram að Hólmsheiði komi lakar út en aðrir kostir að því er varðar nálægð við fjöll, veðurfar og hæð yfir sjávarmáli. „Á Bessastaðanesi og Lönguskerjum þarf að taka veigamikla umhverfisþætti með í reikninginn þegar fjallað er um þau svæði sem möguleg flugvallarstæði auk þess sem Löngusker er dýrasti kosturinn. Breyttar útfærslur í Vatnsmýrinni hafa mikil áhrif á umhverfið ásamt því að vera kostnaðarsamar og jafngilda því að byggja nýjan flugvöll. Á Bessastaðanesi er rými til staðar fyrir flugbrautir og þá flugstarfsemi sem nú er í Vatnsmýri en þróunarmöguleikar takmarkaðir og sömu sögu má segja á Lönguskerjum, en þar yrðu flugbrautir ekki lengdar og athafnasvæði stækkað nema með dýrum landfyllingum.“
Þarf að tryggja rekstur Reykjavíkurflugvallar í nánustu framtíð
Stýrinefndin legur til að aðilar samkomulagsins komi sér nú saman um næstu skref í málinu. Þau séu tvö. Annars vegar að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð næsta vetur með nauðsynlegum rannsóknum ásamt því að kortleggja rekstrarskilyrði mismunandi útfærslu og hönnunar. Náist samstaða um það leggur stýrihópurinn til að stofnað verði sameiginlegt undirbúningsfélag í þessu skyni.
Hins vegar að ná samkomulagi um rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri á meðan nauðsynlegur undirbúningur og eftir atvikum framkvæmdir fara fram. Að sama skapi þarf að eyða óvissu um framtíð æfinga, kennslu- og einkaflugs.