Hagfræðingurinn Nouriel Roubini, sem er einna þekktastur fyrir það að spá fyrir um niðursveifluna á fjármálamörkuðum 2007 og 2008, segir að viðvörunarljós séu nú farin að sjást á mörkuðum vegna þess hversu mikið magn af ódýru fé flæði um markaði. Þar eru örvunaraðgerðir seðlabanka heimsins í miðpunkti, en þeir hafa dælt fjármagni á litlum sem engum vöxtum, út á markaði alveg frá því niðursveiflan náði hámarki á fjármálamörkuðum, á árunum 2007 og 2008. Þetta kemur fram á vef Business Insider.
Roubini óttast að aðgerðir seðlabanka, sem miði að því að örva markaði, muni til lengdar ýta undir bólumyndun á markaði og ýktar sveiflur. Þá séu einnig komin fram einkenni þess að þessar ýktu sveiflur, þar sem fjármagn hreyfist hratt milli eignaflokka á markaði, séu farnar að valda því að lausafjárerfiðleikar skapist hjá sjóðum tímabundið, sem svo geti hrint af stað dramatískri niðursveiflu. Roubini segir þessi einkenni hafa komið fram árið 2010, þegar verð á verðbréfum hrundi á örskömmum tíma um 10 prósent, og þá hafi miklar og ýktar sveiflur á skuldabréfamarkaði, vegna orða þáverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Ben Bernanke, á vormánuðum 2013, verið vísbendingar um að eitthvað sé gruggugt undir sléttu yfirborði fjármálamarkaða í augnablikinu.
Með þessu er Roubini að taka undir með Benoit Coeure, sem á sæti í bankastjórn Seðlabanka Evrópu, en hann hefur lýst yfir áhyggjum sínum af því að miklar örvunaraðgerðir seðlabanka heimsins, sem engin fordæmi eru fyrir sé horft til hlutfallslegrar stærðar þeirra miðað við efnahag ríkjanna, geti komið í bakið á heimsbúskapnum síðar meir.