Hátt í fimm þúsund umsóknir um ráðningastyrki hafa verið afgreiddar af Vinnumálastofnun frá því að átakið Hefjum störf hófst í mars á þessu ári. Heildargreiðslur átaksins nema rétt rúmum 1,4 milljörðum króna. Þar af námu greiðslur fyrir tímabilið frá mars og út júní rúmum 1,3 milljörðum króna. „Nú er verið að vinna í reikningum sem bárust um síðustu mánaðamót svo júlítalan á örugglega eftir að hækka mikið á næstu dögum,“ segir í skriflegu svari Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, við fyrirspurn Kjarnans.
Í mars, fyrsta mánuði átaksins, afgreiddi Vinnumálastofnun alls 296 umsóknir og námu greiðslur í mánuðinum rúmum 114 milljónum króna. Fjöldi umsókna hefur síðan þá aukist í hverjum mánuði en í júní nam fjöldinn 1826 og heildargreiðslur rúmum 511 milljónum króna. Líkt og áður segir eru tölur fyrir júlímánuð ekki tilbúnar en Unnur telur það líklegt að tölurnar fyrir júlí verði stærri en fyrir undanfarna mánuði. Hingað til hafa um 87 milljónir verið greiddar í mánuðinum.
Óvíst hversu mörg framtíðarstörf muni skapast
Aðspurð um hvort ábendingar hafi borist um að úrræðið sé misnotað á einhvern hátt segir Unnur að slíkar ábendingar séu fáar. „Við höfum ekki fengið margar ábendingar um að verið sé að misnota úrræðið. Við stundum ,,fyrirfram” eftirlit, þ.e. við göngum úr skugga um að ráðningarsamningar séu löglegir og laun skv. kjarasamningum. Víð staðreynum einnig launagreiðslur atvinnurekenda til atvinnuleitenda áður en við greiðum styrkinn. Þegar vísbendingar berast um að eitthvað sé í ólagi, skoðum við hvert mál sérstaklega og tökum svo ákvarðanir í framhaldi af þeirri rannsókn.“
Unnur segir að átak sem þetta geti skapað mörg störf til frambúðar og skili allt að 80 prósenta árangri í venjulegu árferði. Erfitt sé að spá fyrir um hversu mörg framtíðarstörf muni skapast. „Við munum fylgjast vel með því í haust hversu mörg framtíðarstörf verða til upp úr þessu átaki. Við vonum eðlilega að þau verði sem allra flest en eins og áður eru þetta óvissutímar og ekki gott að sjá fyrir þróunina í faraldrinum í haust. Í venjulegu árferði þá hefur þetta vinnumarkaðsúrræði skilað allt upp í 80% árangri, þ.e. milli 75-80% þeirra sem hafa fengi starf með ráðningarstyrk komu ekki aftur til okkar í atvinnuleit. Nauðsynlegt er að halda því til haga að þessi árangur var fyrir Covid, við sjáum hvað setur þegar fer að líða á haustið.“
Áætlaður kostnaður allt að fimm milljarðar króna
Atvinnuátakið Hefjum störf var sett af stað í mars á þessu ári. Þá var markmiðið að skapa allt að sjö þúsund tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Ráðgert var að kostnaðurinn myndi nema 4,5 til fimm milljörðum króna þegar átakið var kynnt.
Nokkrar tegundir styrkja eru í boði. Samkvæmt yfirliti yfir styrkina á heimasíðu Vinnumálastofnunar geta fyrirtæki fengið styrk sem nemur allt að 307.430 krónum á mánuði að viðbættu mótframlagi í lífeyrissjóð, samtals tæplega 343 þúsund krónur, í sex mánuði ef fyrirtækið ræður starfsmann sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í að minnsta kosti einn mánuð. Lítil og meðalstór fyrirtæki með færri en 70 starfsmenn geta fengið enn hærri styrk. Ef slíkt fyrirtæki ræður atvinnuleitanda sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í að minnsta kosti ár fær það styrk sem nemur fullum mánaðarlaunum að hámarki tæplega 473 þúsund krónum að viðbættu mótframlagi í lífeyrissjóð, samtals rúmlega 527 þúsund krónur.