Rekstrartap Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins, Hringbrautar, DV og tengdra miðla, var 688,7 milljónir króna í fyrra. Árið áður var rekstrartap félagsins 197,3 milljónir króna og því nemur sameiginlegt rekstrartap þess á tveimur árum 886 milljónum króna.
Þegar vaxtagjöldum vegna lána sem Torg hefur þurft að borga af og gengismun er bætt við kemur í ljós að tap af reglulegri starfsemi fyrir skatta var um 750 milljónir króna á síðasta ári og rúmlega einn milljarður króna á síðustu tveimur áður.
Áður hafði verið upplýst í frétt í Fréttablaðinu að Torg hefði tapað um 600 milljónum króna á árinu 2020. í ársreikningi félagsins, sem gerður var aðgengilegur í ársreikningaskrá í dag, kemur fram að mismunurinn á endanlegu tapi og því tapi sem varð af reglulegri starfsemi Torgs sé að uppistöðu fólgin í því að tekjuskattsinneign vegna tapsins á 150 milljónir króna var tekjufærð.
Torg er í eigu tveggja félaga, Hofgarða ehf. og HFB-77 ehf. Eigandi fyrrnefnda félagsins er fjárfestirinn Helgi Magnússon og hann á 82 prósent í því síðarnefnda. Helgi er auk þess stjórnarformaður Torgs. Aðrir eigendur þess eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, Jón G. Þórisson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi.
Keyptu DV og tengda miðla á 300 milljónir
Hópurinn keypti Torg í tveimur skrefum á árinu 2019. Kaupverðið var trúnaðarmál en í ársreikningi HFB-77 ehf. fyrir árið 2019 má sjá að það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna á því ári. Torg var og er eina þekkta eign félagsins.
Á árinu 2020 var gengið frá kaupum á DV og tengdum miðlum frá Frjálsri fjölmiðlun, félags sem skráð er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar en var alla tíð fjármagnað með vaxtalausum lánum frá fjárfestingafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar. Frá því að Frjáls fjölmiðlun eignaðist miðlanna haustið 2017 og þangað til að þeir voru seldir til Torgs í apríl 2020 tapaði útgáfufélagið um 745 milljónum króna. Torg greiddi samt sem áður 300 milljónir króna fyrir miðlanna en samkvæmt ársreikningi voru 100 milljónir króna greiddar með fjármunum úr rekstrinum og 200 milljónir króna með nýjum langtímalánum. Frjáls fjölmiðlun virðist hafa lánað að minnsta kosti 150 milljónir króna af þeirri upphæð í formi seljendaláns, en eina fastafjármunaeign þess félags er skuldabréf upp á þá tölu sem varð til í fyrra.
Tekjur dregist saman
Flaggskipið í útgáfu Torgs er Fréttablaðið. Útgáfudögum þess var fækkað úr sex í fimm á viku í fyrra þegar hætt var með mánudagsútgáfu blaðsins. Lestur Fréttablaðsins, sem er frídreift í 80 þúsund eintökum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, mældist 31 prósent í síðasta mánuði. Hann hefur dalað jafnt og þétt undanfarin ár en í apríl 2007 var hann 65,2 prósent og hélst yfir 50 prósent þangað til í desember 2015. Síðsumars 2018 fór lesturinn svo undir 40 prósent í fyrsta sinn og stefnir nú undir 30 prósent á næstu mánuðum, en frá byrjun árs 2018 hefur lestur Fréttablaðsins aukist á milli mánaða í sex skipti en dalað 39 sinnum.
Þrátt fyrir að Hringbraut, DV og ýmsum tengdum miðlum hafi verið bætt við samstæðuna þá hafa rekstrartekjur Torgs dregist umtalsvert saman á undanförnum árum. Þær voru tæplega 2,6 milljarðar króna á árinu 2018 en voru rétt yfir tvo milljarða króna í fyrra. Þar af skilaði sala, aðallega auglýsinga, 1.923 milljónum krónum í fyrra en 2.574 milljónum króna tveimur árum fyrr. Tekjur af sölu hafa því dregist saman um fjórðung þrátt fyrir að fjölmiðlunum í samstæðunni hafi fjölgað umtalsvert á tímabilinu.
Óvissa um mat á viðskiptavild
Hlutafjáraukningin sem framkvæmd var undir lok síðasta árs gerði það að verkum að eigið fé Torgs var jákvætt um síðustu áramót um 290 milljónir króna. Án hennar hefði það verið neikvætt um mörg hundruð milljónir króna. Það er nánast sama eiginfjárstaða og var undir lok árs 2019, en á því ári hafði eigið fé helmingast vegna tapreksturs.
Í ársreikningi Torgs segir að ástæða hins mikla tapreksturs í fyrra hafi verið samdráttur í auglýsingatekjum ásamt því að kostnaður vegna launa og dreifingar jókst. „Á vormánuðum hefur rekstrarumhverfi Torgs ehf. hefur breyst mjög hratt til hins betra með aukinni auglýsingasölu þannig að stjórnendur félagsins gera sér vonir um að jafnvægi verði í rekstri þess á árinu 2021.“
Þar segir þó einnig að eignir og skuldir félagsins séu metnar með hliðsjón af því að forsenda um rekstrarhæfi félagsins sé fyrir hendi. Sú óvissa um rekstrarhæfi snýst fyrst og síðast um mat á viðskiptavild sem metin er á 943,5 milljónir króna. Í áliti endurskoðanda Torgs í ársreikningi félagsins vegna ársins 2020 er gerð sérstök ábending vegna þessarar óvissu, en sérstaklega tekið fram að það sé gert án þess að fyrirvari sé gerður við reikninginn.
Heildarskuldir komnar í 1,5 milljarð króna
Viðskiptavild er mat á virði huglægra eigna fyrirtækis. Með því er til að mynda sett mat á fjárhagslegu verðmæti þess að eiga hóp fastra viðskiptavina, eins og þeirra sem kaupa auglýsingar af miðlum Torgs og þeirra sem lesa eða horfa á þá.
Í ársreikningi Torgs kemur fram að viðskiptavild félagsins hafi hækkað mikið í fyrra, alls um 191,1 milljón króna í 943,5 milljónir króna, þrátt fyrir að tekjur Torgs hafi dregist saman og reksturinn skilað 750 milljóna króna tapi af reglulegri starfsemi fyrir skatta.
Viðskiptavild og tekjuskattsinneign vegna uppsafnaðs taps voru um 61 prósent af öllum eignum Torgs í lok síðasta árs og rúmlega öll ástæða hækkunar á virði heildareigna á því ári.
Heildarskuldir Torgs jukust um 318,5 milljónir króna í fyrra og stóðu í 1,5 milljarði króna um síðustu áramót. þær hafa aukist um 740 milljónir króna á tveimur árum, eða nánast tvöfaldast. Í fyrra munaði mestu um að áðurnefnd skuld við tengda aðila fór úr því að vera engin í að vera 440 milljónir króna.
Pappír hækkar vegna faraldursins
Torg er á meðal þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem fengið hefur styrk úr ríkissjóði sem veittur er til einkarekinna fjölmiðla. Félagið fékk 50 milljónir króna á árinu 2019 og rúmlega 81 milljón króna vegna ársins 2020.
Þeir miðlar sem gefa út í prenti hafa orðið fyrir umtalsverðum kostnaðarhækkunum undanfarið sem rekja má til aðfangaskorts vegna kórónuveirufaraldursins. Sérstaklega þeir sem prenta stór upplög af blöðum í viku hverri, eins og Fréttablaðið.
Stundin greindi frá því í lok september að 40 prósent verðhækkun eða meiri væri yfirvofandi á dagblaðapappír og vitnaði þar í tilkynningu sem Landsprent, prentsmiðju í eigu Árvakurs, hafði sent viðskiptavinum sínum en Landsprent prentar meðal annars Stundina.
Kjarninn er á meðal þeirra fjölmiðla sem þiggja rekstrarstyrki úr ríkissjóði og fékk 14,4 milljónir króna við síðustu úthlutun. Þau fyrirtæki sem hér eru til umfjöllunar eru samkeppnisaðilar Kjarnans.