Frá því að Menntasjóður námsmanna byrjaði að bjóða upp á allt að 15 prósenta uppgreiðsluafslátt vegna uppgreiðslu eldri lána og aukainnborgana á skuldabréf hafa tæplega tvö þúsund manns fengið rúman hálfan milljarð í afslátt frá stofnuninni fyrir að greiða upp námslán sín, samkvæmt svari sjóðsins við fyrirspurn Kjarnans.
Uppgreiðsluafslátturinn var hækkaður upp í allt að 15 prósent um mitt ár í fyrra með nýjum lögum um Menntasjóðinn, sem áður hét Lánasjóður íslenskra námsmanna. Samkvæmt Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur framkvæmdastjóra sjóðsins hafa aukainnborganir og uppgreiðslur til sjóðsins aukist frá því sem áður var, eftir að þessar breytingar voru gerðar.
Nánar tiltekið hafa alls 1.923 einstaklingar greitt upp námslán sín frá því að breyting á afsláttarkjörunum tók gildi. Nemur veittur afsláttur vegna uppgreiðslna skuldabréfa 480,3 milljónum króna en heildarafsláttur vegna aukainnborgana á skuldabréf 36,7 milljónum króna.
Hærri lán – meiri afsláttur
Það fer eftir því hversu mikið fólk skuldar í námslán hversu hár afslátturinn verður, en þeir sem skulda meira fá hærri afslátt.
Ef greiðandi skuldar eina milljón króna samanlagt af öllum skuldabréfum sem eru komin í innheimtu nemur afslátturinn 5 prósentum og fer síðan hækkandi og er veittur hámarksafsláttur, 15 prósent, ef greiðandinn skuldar 4,8 milljónir króna eða meira.
Sótt er um uppgreiðsluafsláttinn rafrænt á vef Menntasjóðsins og fá greiðendur í kjölfarið sendan greiðsluseðil í heimabanka þar sem búið er að draga frá upphæðinni þann afslátt sem viðkomandi á rétt á.
Eingöngu hægt að fá afslátt vegna uppgreiðslu á eldri lánum og afslátt vegna aukainnborgana af námslánum samkvæmt eldri lögum. Ekki er hægt að fá uppgreiðsluafslátt af svokölluðum H-lánum, sem eru þau lán sem veitt eru í dag. Þau fela í reynd í sér styrkjakerfi fyrir námsmenn, en þeir sem ljúka námi á tilsettum tíma eiga rétt á 30 prósent niðurfellingu höfuðstóls námslánsins.