Níu stjórnmálaflokkar myndu eiga sæti á Alþingi eftir komandi kosningar ef niðurstaðan í september yrði í samræmi við þær sem birtast í könnun sem rannsóknarfyrirtækið Prósent (áður Zenter) hefur unnið fyrir Fréttablaðið og fjallað er um í blaðinu í dag
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 23,6 prósent fylgi, Píratar með 13,3 prósenta fylgi og Samfylkingin mælist með 12,6 prósent. Vinstri græn mælast með tæp 12 prósent, Framsóknarflokkurinn 10,6 prósent og Viðreisn með 10,1 prósent.
Undir tíu prósenta markinu eru svo Sósíalistaflokkurinn, sem mælist með 6,1 prósent í könnuninni frá Prósent. Miðflokkurinn helst einnig inni á þingi með 5,6 prósenta fylgi og Flokkur fólksins mælist með slétt 5 prósenta fylgi, samkvæmt þessari könnun sem fjallað er ítarlega um í Fréttablaðinu í dag.
Helmingur kjósenda VG leitar á önnur mið
Þeir sem svöruðu könnuninni voru einnig spurðir að því hvaða flokk þeir greiddu atkvæði í alþingiskosningunum árið 2017 og með því fæst niðurbrot á því hvaða flokkum hefur haldist á stuðningsmönnum sínum á yfirstandandi kjörtímabili og hverjum ekki.
Hæst hlutfall kjósenda hefur sagt skilið við Vinstri græn, en einungis 49 prósent þeirra sem kusu flokkinn árið 2017 segjast ætla að greiða VG atkvæði sitt í kosningunum í septemberlok. Þetta hlutfall er 50 prósent hjá Flokki fólksins, 58 prósent hjá Miðflokknum og 59 prósent hjá Samfylkingunni, en öðrum flokkum hefur haldist betur á kjósendum sínum.
Mest er trygglyndið hjá sjálfstæðismönnum, en 81 prósent af þeim sem greiddu flokknum atkvæði sitt árið 2017 hafa uppi áætlanir um að kjósa flokkinn á ný. Þetta hlutfall er 78 prósent hjá Viðreisn, 76 prósent hjá Framsóknarflokknum og 73 prósent hjá Pírötum.
Könnunin var framkvæmd dagana 15. til 23. júlí. Um netkönnun var að ræða sem send var á könnunarhóp Prósents. Í hópnum voru 2.600 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri og voru svör þeirra vegin eftir kyni, aldri og búsetu. Svarhlutfall var 52 prósent.