Litlu munaði að rússnesk herflugvél, sem hafði slökkt á sendum til að forðast að sjást á ratsjá, ylli árekstri við farþegaþotu yfir Svíþjóð á föstudaginn. Sambærilegt atvik átti sér stað yfir Svíþjóð í marsmánuði síðastliðinum, og því hefur rússneski herinn tvisvar verið nálægt því að valda hörmulegu stórslysi. Fréttamiðillinn Guardian greinir frá málinu. Í fyrra tilvikinu voru innan við hundrað metrar á milli farþegaþotu SAS flugfélagsins og rússneskrar herflugvélar, sem sömuleiðis hafði slökkt á sendum sínum.
Atvikið á föstudaginn átti sér stað yfir suðurhluta Svíþjóðar, en farþegaþotan hafði tekið á loft frá Kaupmannahöfn. Fjölmiðlar í Svíþjóð og Danmörku segja að farþegaþotan hafi verið á leið til Póllands, en hvorki hefur fengið staðfest frá hvaða flugfélagi hún var né hversu margir farþegar voru um borð.
Sænsk hermálayfirvöld segja að Rússarnir hafi slökkt á sendum flugvélarinnar til að sjást ekki á ratsjá, og sænskar herþotur sem sendar voru á vettvang hafi staðfest að um rússneska njósnaflugvél hafi verið að ræða.
„Þetta er alvarlegt og óviðeigandi. Það er stórhættulegt þegar menn slökkva svona á sendum,“ sagði Peter Hultquist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar í útvarpsviðtali þar í landi, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian um málið.
Embættismenn við varnamálaráðuneyti Rússlands vildu ekki tjá sig við Guardian í gær, þegar eftir því var leitað.
Á síðustu mánuðum hafa Rússar aukið hernaðarleg umsvif sín í Eystrarsalti, og hafa sumir sænskir embættismenn líkt aðgerðunum við þær sem tíðkuðust í kalda stríðinu. Í október varð uppi fótur og fit í Svíþjóð þegar sást til kafbáts fyrir utan skerjagarðinn við Stokkhólm. Margir óttuðust að þar hefði verið á ferð rússneskur kafbátur, en þrátt fyrir umfangsmikla leit fannst kafbáturinn aldrei, og aldrei hefur verið gefið út opinberlega hverrar þjóðar hann var.