Fjöldi rússneskra banka hefur tilkynnt fyrirhugaða upptöku greiðslukorta frá kínverska kortafyrirtækinu Union Pay, eftir að Visa og Mastercard tilkynntu að þau myndu stöðva öll viðskipti í Rússlandi um helgina. Þetta kemur fram í fréttum Reuters.
Visa og Mastercard tilkynntu á laugardaginn að kort á þeirra vegum sem væru ekki gefin út í Rússlandi myndu ekki virka í landinu innan fárra daga. Sömuleiðis myndu kort sem hefðu verið gefin út í Rússlandi ekki virka í öðrum löndum. Ástæða ákvörðunarinnar er innrás Rússa í Úkraínu, en framkvæmdastjóri Visa kallaði atburði síðustu daga „óásættanlega.“
Nú þegar hefur fjöldi rússneskra banka verið útilokaður frá alþjóðlega SWIFT-greiðslukerfinu vegna innrásarinnar, auk þess sem Paypal hefur stöðvað starfsemi sína í landinu og eignir fjölda rússneskra auðmanna í Evrópulöndum hafa verið frystar. Í kjölfar þessara aðgerða hefur virði rússneska gjaldmiðilsins, rúblunnar, hrunið, en það er nú fimmtungi lægra í Bandaríkjadölum heldur en fyrir innrásina.
Stærsti viðskiptabanki Rússlands, Sberbank, hefur tilkynnt rússnesku viðskiptavinum sínum að þeir geti enn tekið út pening, millifært og keypt á innlendum netverslunum með kortunum sínum, þar sem ákvarðanir Visa og Mastercard hafa ekki áhrif á innlenda greiðslukerfið.
Í gær tilkynnti svo Sberbank, ásamt bönkunum Alfa Bank og Tinkoff, að þeir hygðust stunda viðskipti við kínverska kortafyrirtækið Union Pay í staðinn fyrir Visa og Mastercard. Þessi kort yrðu svo tengd rússneska greiðslumiðlunarkerfinu, sem nefnist Mir.