Sautján milljón króna hagnaður varð af rekstri Ríkisútvarpsins fyrstu sex mánuði ársins 2015, en tap þess nam 36 milljónum króna á fyrstu tíu mánuðum yfirstandandi rekstrarárs, það er frá 1. september 2014 til 30. júní 2015, á meðan tap síðasta rekstrarárs, 2013-2014, var 271 milljón króna eftir skatta.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu. „Helstu ástæður þess að reksturinn batnar eru að tekjur hækka á milli ára og rekstrarkostnaður fer lækkandi vegna ýmissa hagræðingaraðgerða sem gripið hefur verið til í starfsemi félagsins. Þetta gerist þrátt fyrir að kostnaður við dreifikerfi hafi hækkað verulega en sá kostnaður byggist á samningi um stafræna dreifingu sem gerður var vorið 2013. Afskriftir rekstrarfjármuna lækka einnig milli ára en fjármagnskostnaður er enn hár vegna mikillar skuldsetningar. Kostnaður við sameiginlegan rekstur og yfirstjórn lækkar milli tímabila. Stöðugildum fækkar, þau voru að meðaltali 257 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008,“ segir enn fremur.
Takmarkanir leiða til lækkun auglýsingatekna
Í tilkynningunni segir að nokkur óvissa sé um rekstrahorfur á næstunni, og þá muni hækkun á launa og laungatengdra gjalda nema um 140 milljónum á seinni hluta ársins. „Ljóst er að auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins muni, vegna takmarkana í lögum og þróunar á markaði, halda áfram að dragast saman að raungildi. Þá liggur fyrir að nýsamþykktir kjarasamningar á almennum markaði munu hækka rekstrarkostnað umtalsvert. Gert er ráð fyrir að laun og launatengd gjöld muni vegna þessa hækka um tæplega 140 m.kr. á seinni hluta ársins 2015 og aftur um 180 m.kr. á árinu 2016. Áhrif aukinnar verðbólgu verða einnig mikil eða um 70–90 m.kr. á ári í hækkun rekstrarkostnaðar miðað við verðbólguspár. Stjórn Ríkisútvarpsins hefur því vakið athygli á því að til að ekki þurfi að grípa til enn frekari niðurskurðaraðgerða og þjónustuskerðingar megi útvarpsgjald ekki lækka frekar en orðið er, heldur verði að taka mið af verðlagsþróun,“ segir í tilkynningunni.