Írska lággjalda flugfélagið Ryanair hyggst flytja starfstöð sína í Kaupmannahöfn til Kaunas í Litháen þann 14. júlí næstkomandi. Í fréttatilkynningu sem flugfélagið sendi frá sér í dag segir að áfram verði þó flogið frá Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn til þrettán áfangastaða félagsins víðs vegar um Evrópu.
Eins og Kjarninn hefur greint frá tapaði Ryanair nýverið dómsmáli fyrir dönskum vinnuréttardómstóli, sem snérist um hvort dönskum flugvallarstarfsmönnum væri heimilt að efna til vinnustöðvunar í því skyni að neyða flugfélagið til að fara að dönskum lögum um kaup og kjör. Stjórnendur Ryanair voru mjög ósáttir við niðurstöðuna og hyggjast fara með málið fyrir dómstól Evrópusambandsins.
Boðuð allsherjar vinnustöðvun dönsku stéttarfélaganna, til stuðnings starfsmönnum Ryanair í Danmörku, átti að að fara fram þann 18. júlí næstkomandi og því brugðu forsvarsmenn flugfélagsins á það ráð að loka starfsstöðinni í Kaupmannahöfn.
Hætta í Billund verði ekki fallið frá aðgerðum
Ein vél í eigu félagsins er með Billund sem heimahöfn, og byrjar og endar sínar ferðir þar. Danska alþýðusambandið benti á sínum tíma á að með slíku fyrirkomulagi ætti að greiða samkvæmt dönskum kjarasamningum en í Billund vógu hagsmunirnir af starfsemi Ryanir hærra og þar við sat. Starfsfólk Ryanair í Danmörku var ekki ráðið samkvæmt dönskum kjarasamningum, það er sama fyrirkomulagið og flugfélagið hefur haft víða um lönd.
Rök Ryanair hafa ætíð verið þau sömu, félagið sé írskt, skráð á Írlandi og beri þarafleiðandi engin skylda til að hlíta lögum og reglum um kaup og kjör í þeim löndum sem félagið flýgur til og hefur aðra starfsemi. Þetta hefur Ryanair tekist, þangað til núna.
Þá greindi viðskiptablað Berlingske Tidende frá því í kvöld að önnur fréttatilkynning hafi borist fjölmiðlum frá írska lággjalda flugfélaginu í kvöld þar sem það hóti að starfsstöðinni í Billund verði sömuleiðis lokað frá og með miðnætti á föstudaginn í næstu viku, falli dönsku verkalýðsfélögin ekki frá boðuðum aðgerðum gegn félaginu þann 18. júlí næstkomandi.