„Fólk treystir sér kannski ekki til þess að lesa út úr sínum eigin bókhaldstölum eða þá að fara inn á netið að fylla þetta út. Það er fullt af fólki sem hefur ekki burði í það.“ Þetta segir Benedikt Viggósson, framkvæmdastjóri Ferðavefja, sem býður upp á að sækja um viðspyrnustyrki fyrir ferðaþjónustufyrirtæki gegn þóknun sem nemur 20 prósentum af styrkjunum.
Fjármálaráðuneytið segir að einhver fyrirtæki kunni að sjá sér hag í því að bjóða upp á þessa þjónustu vegna þess hve margir umsækjendurnir séu, en segir umsóknirnar þó einfaldar. Benedikt segist hafa unnið í nær 20 umsóknum.
Víða pottur brotinn
Samkvæmt heimasíðu sinni sérhæfa Ferðavefir sig í ýmsa þjónustu fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, líkt og vefsíðugerð, hönnun og ráðgjöf um rekstur. Í samtali við Kjarnann segir Benedikt að hugmyndin að þjónustunni hafi kviknað þegar einn viðskiptavinur Ferðavefja tjáði honum hann ætti ekki rétt á neinum viðspyrnustyrkjum frá stjórnvöldum, samkvæmt bókara fyrirtækisins.
Benedikt fór þá yfir lykilupplýsingar hjá viðskiptavini sínum og komst að því að hann ætti víst rétt á styrk miðað við þær forsendur. „Þá talaði ég í framhaldinu við bókarann hans og þá kom eiginlega í ljós að bókarinn hafði ekki mikla þekkingu og engan tíma til þess að aðstoða hann við þetta. Þá fór mig að gruna að það væri víða pottur brotinn,“ segir Benedikt.
Getur virkað óaðgengilegt fyrir aðra
Aðspurður hvort hann telji að útfylling umsóknanna krefjist sérþekkingar telur Benedikt svo ekki vera, en segir þó að hlutir geti virkað mjög óaðgengilegir fyrir suma, þrátt fyrir að þeir virki mjög einfaldir fyrir fólk sem hafi gert þá.
„Fólk sem hefur til dæmis ekki mjög góða tölvukunnáttu og treystir síðan kannski algjörlega í blindni á bókhaldsskrifstofuna sem segir kannski: „Nei, það tekur því ekki að sækja um þetta,“ og þá stoppa hlutirnir bara alveg,“ bætir hann við. „Fólk treystir sér kannski ekki til að lesa út úr sínum eigin bókhaldstölum eða þá að fara inn á netið að fylla þetta út. Það er fullt af fólki sem hefur ekki burði í það.“
Allt að tíu milljóna króna styrkur
Benedikt segir marga vera búna að hafa samband við hann og viljað nýta sér þjónustuna. Samkvæmt honum er fjöldinn kominn á annan tuginn og farinn að nálgast 20. Þó séu margar umsóknir enn ókláraðar, þar sem einhverjar upplýsingar vanti í nokkrum tilvikum og sums staðar eigi eftir að stilla af bókhaldið.
Af þeim umsóknum sem eru afgreiddar hafi minnsti styrkurinn hins vegar numið um 700 þúsund krónum, en að eitt fyrirtæki muni að öllum líkindum fá hátt í 10 milljónir króna. Samkvæmt honum hefði fyrirtækið sem fékk minnsta styrkinn einnig rétt á að fá tekjufallsstyrk, sem boðið var upp á á fyrstu mánuðum faraldursins, ef það hefði sótt um hann á réttum tíma.
Hvetur alla til þess að sækja um
Aðspurður hvort honum finnist eðlilegt að taka fimmtung af opinberum styrkjum sem ætlaðir eru fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli segir Benedikt að ekkert þeirra taki fjárhagslega áhættu við að sækja um, þar sem engin þóknun sé tekin af þjónustunni ef enginn styrkur næst. „Við erum ekki að krefjast þess að menn nýti sér þjónustu okkar, við erum bara að bjóða upp á hana og í leiðinni kannski að hvetja menn til þess að taka þetta til endurskoðunar hjá sér.“
„Ég hvet bara öll þau fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu og telja sig eiga rétt á þessu að skoða þessi mál. Það hefur ekkert með mig að gera,“ bætir hann við. „Mér finnst mjög alvarlegt mál að það séu tugir, jafnvel hundruð fyrirtækja, þar sem skortur er á þekkingu og svoleiðis fái ekki þann styrk sem þau eiga rétt á.“
Segir umsóknarferlið einfalt og fljótlegt
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir fjármálaráðuneytið að Skatturinn aðstoði umsækjendur fyrir viðspyrnustyrki í umsóknarferlinu sínu og svari fyrirspurnum. Einnig séu greinargóðar leiðbeiningar og bent á atriði sem reyni á í umsóknarferlinu á vef Skattsins.
Ráðuneytið svaraði því ekki hvort það hefði einhverja skoðun á því að fyrirtæki byðust til að aðstoða umsækjendur gegn þóknun, en segir það kunna að vera að einhverjir sjái tækifæri í því vegna þess hve margir umsækjendurnir séu. Hins vegar segir ráðuneytið að útfylling umsóknanna sé fljótleg og einföld, en hún krefjist þó að viðkomandi þekki ákveðnar lykilupplýsingar úr rekstri umsækjenda.