Helstu veðbankar spá framlagi Svía í Eurovision, laginu Heroes í flutningi Måns Zelmerlöw, sigri í úrslitum söngvakeppninnar sem fram fara í Vínarborg í kvöld.
Samkvæmt veðmálasíðunni Oddschecker, sem heldur utan um veðmálastuðla helstu veðbanka heims, hafnar Svíar í efsta sætinu, Rússar öðru, Ítalir í því þriðja og Ástralir, sem fá nú að taka þátt í keppninni í tilefni af 60 ára afmæli Eurovision, hafna í því fjórða. Þá kemur Belgía fast á hæla Ástralíu í fimmta sætinu.
Sænska lagið hefur fengið sinn skerf af gagnrýni, en Svíar hafa verið sakaðir um að senda stolið lag til keppninnar.
Sænska lagið þykir svipa vandræðalega mikið til lagsins Lovers on the Sun með tónlistarmanninum David Guetta, sem hélt tónleika hér á landi þann 16. júní síðastliðinn. Umrætt lag Guetta má sjá og heyra hér að neðan, dæmi hver fyrir sig.
Þá er söngvari sænska lagsins sömuleiðis umdeildur, en hann hefur í gegnum tíðina látið meiðandi ummæli falla í garð samkynhneigðra. Til að mynda neyddist Zelmerlöw til að biðjast afsökunar á ummælum sem hann lét falla í matreiðsluþætti í heimalandinu, þar sem hann sagði að það væri ekki náttúrulegt fyrir tvo karlmenn að vilja sofa saman, að samkynhneigð væri afbrigðileg og að samkynhneigðir ættu ekki að vera foreldrar. Sjá umfjöllun The Independent um málið.
Hvort fordómar Zelmerlöw í garð hinsegin fólks muni verða honum að falli í kvöld er erfitt að spá fyrir. Í það minnsta eru helstu veðbankar heims á því að hann muni fara með sigur úr býtum í Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva, en hann verður tíundi flytjandinn á sviðið í Vín í kvöld.