„Söguleg stund! Fyrsta myndin frá Webb-geimsjónaukanum!“
Það er ekki annað hægt en að smitast af ákefð Sævars Helga Bragasonar, vísindamiðlara og fjölmiðlamanns, sem getur vart hamið kæti sína eftir að hafa barið fyrstu myndina sem tekin var með sjónauka sem kenndur er við James Webb og birt var í gær. Það stóð reyndar ekki til að birta myndina og fleiri sem teknar voru af fjarlægum vetrarbrautum fyrr en í dag en Joe Biden Bandaríkjaforseti var líklega álíka uppnuminn og Sævar Helgi og birti eina í gær. Sýnishorn af alheimi.
„Guuuuullfallegar vetrarbrautir, magnaðar upp af þyngdarlinsu!“ skrifar Sævar Helgi á Facebok-síðu sína í gærkvöldi. Hann segir björtu gulhvítu blettina í miðjunni vera þyrping sporvöluþoka í 4,6 milljarða ljósára fjarlægð sem hafi svo mikinn massa að hún verkar eins og linsa sem magnar upp ljós frá enn fjarlægari vetrarbrautum (bogadregnar). „Þetta er skýrasta mynd sem tekin hefur verið af daufustu fyrirbærum sem sést hafa í alheiminum,“ bendir hann á og segir nýtt skeið í stjarnvísindum hafið.
„Hugsið ykkur!“ heldur hann áfram í ummælum við færslu sína sem margir tjáð sig um. „Þarna er þyrilþoka svipuð þeirri sem við búum í. Kannski býr einhver þarna? Stjörnur á himninum þeirra jafn strjálar og á næturhimninum okkar. Og útsýnið þaðan til okkar er svipað því sem við sjáum. Þau sjá okkur eins og við litum út fyrir milljörðum ára. Skyldu þau eiga geimsjónauka líka?“
Í dag mun veislan halda áfram. Þá verða birtar myndir af Kjalarþokunni, „stórglæsilegri stjörnuverksmiðju í ríflega 7000 ljósára fjarlægð; glæsilegum hópi vetrarbrauta sem kallast Kvintett Stephans; NGC 3132 (Suðurhringþokunni) sem er leifar dáinnar lágmassastjörnu sem svipaði til sólarinnar okkar – og, síðast en ekki síst, fáum litróf af andrúmslofti fjarreikistjörnu sem líkist Júpíter,“ skrifar Sævar Helgi.
Við bíðum líka spennt.