Eftirmál vegna Eurovision söngvakeppninnar í Kaupmannahöfn, sem fram fór í maímánuði síðastliðnum, ætla engan enda að taka. Kostnaðurinn varð margfalt meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir en viðbrögðin minna helst á „Litlu gulu hænuna” þar sem allir, nema sú litla gula, sögðu "ekki ég.“ Í Eurovision sögunni vill hinsvegar enginn vera litla gula hænan og taka á sig ábyrgðina. Sitja uppi með apann eins og Danir kalla það.
Sigurvíman var varla runnin af Dönum eftir sigur Emmelie de Forest í Eurovision söngvakeppninni í maí í fyrra þegar byrjað var að bollaleggja hvar í Danmörku keppnin skyldi haldin árið 2014. Nokkrir staðir voru nefndir, fyrir utan Kaupmannahöfn var einkum talað um Boxen í Herning á Jótlandi. Boxen (heitir Jyske Bank Boxen) er fjölnotahús, var tekið í notkun 2010 og er einkum notað fyrir tónleika, sýningar, íþróttakeppnir og ýmiskonar stærri viðburði. Boxen getur tekið allt að 15 þúsund manns í sæti og hljómburðurinn í húsinu þykir góður. Forum höllin í Horsens og Ráðstefnuhöllin í Óðinsvéum voru einnig nefndar.
Sjónir danska útvarpsins, DR, beindust þó fyrst og fremst að Kaupmannahöfn. Fyrir því voru ýmsar ástæður nefndar. Flugvöllurinn á Kastrup er í tæplega níu kílómetra fjarlægð frá miðborginni, höfuðstöðvar DR eru í Kaupmannahöfn og fyrirséð að ef staður utan höfuðborgarinnar yrði fyrir valinu myndi allt tilstandið við keppnina og undirbúning hennar kosta mikil ferðalög, tíma og fyrirhöfn. Auk þess var nefnt að til dæmis í Herning væri ekki nægt gistirými fyrir allan þann mannskap sem tengdist viðburði sem þessum. Þess vegna þótti stjórnendum DR strax í upphafi Kaupmannahöfn lang vænlegasti kosturinn.
Stálgrindahús verður tónleikahöll
Þann 2. september var tilkynnt að keppnin færi fram í höfuðborginni. Þótt það kæmi ekki sérstaklega á óvart duttu mörgum dauðar lýs úr höfði þegar greint frá keppnisstaðum sjálfum. DR hafði semsé valið að halda keppnina í stóru stálgrindahúsi á Refshaleöen (sem er nú hluti Amager) á gamla athafnasvæði Burmeister & Wain skipasmíðastöðvarinnar. Síðan B&W varð gjaldþrota hafa byggingarnar á Refshaleöen verið nýttar til ýmissa hluta og stóra stálgrindahúsið um nokkurra ára skeið verið notað sem leiktjalda og búningageymsla fyrir Konunglega leikhúsið.
Margar efasemdarraddir heyrðust, þessi forljóta skipasmíðaskemma væri ekki boðleg sem tónlistarhöll, samgöngurnar við svæðið erfiðar, húsið yrði ekki tilbúið o.s.frv. o.s.frv.
Forsvarsmenn DR og fyrirtækisins Propjektselskabet, undirfyrirtæki Wonderful Copenhagen (Ferðamálasamtök Kaupmannahafnar), sem skipulagði og sá um undirbúningsvinnuna fullyrtu að allt yrði tilbúið í tíma, slíkar áhyggjur væru ástæðulausar. Samgöngumálin yrðu leyst, þótt skemman, að utan, væri vissulega enginn fegurðarauki yrði hún því glæsilegri að innan.
Allt gekk þetta eftir og flestir eða allir eru sammála um að keppnin sem slík hafi í alla staði tekist vel, sviðið verið glæsilegt o.s.frv.
Þótt margir hafi efast um að stálgrindarhús væri hentugt húsnæði undir Eurovision, er samdóma álit flestra að síðasta keppni hafi verið hin glæsilegasta.
Mjög langt eftirpartí
Eftir að keppnin var afstaðin kom fljótt í ljós að ekki hafði allt verið með felldu við undirbúninginn. Kannski væri réttara að segja að ekkert hefði þar verið með eðlilegum hætti. Að minnsta kosti hvað fjármálin varðaði. Nokkrum dögum fyrir keppnina greindu danskir fjölmiðlar frá því að kostnaðurinn yrði meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir, líklega um 23 milljónir danskra króna (ca 475 milljónir íslenskar). Þótt það séu miklir peningar hefðu líklega flestir sætt sig við það hefði sagan öll þar með verið sögð. En það var ekki svo, þessar 23 milljónir voru bara upphafið, toppurinn á ísjakanum. og þótt nú séu brátt liðnir sex mánuðir frá keppninni eru fréttir af eftirmálum hennar nánast daglega í fjölmiðlum
Þann 2. maí, þegar keppnin var nýafstaðin, kröfðust nokkrir borgarfulltrúar skýringa á þessum 24 milljóna króna aukareikningi. Ekki voru komin nein viðhlítandi svör þegar tilkynnt var að aukareikningurinn væri ekki 23 heldur 70 milljónir (1.450 milljónir íslenskar) Einn borgarfulltrúi sagði þá að hann væri nokkurnvegin viss um að á endanum yrði þessi tala miklu hærri. Hann reyndist hafa rétt fyrir sér.
Hvernig í veröldinni stendur á þessu?
Þetta er spurningin sem danskir stjórnmálamenn kröfuðust þess að fá svör við og jafnframt hver bæri ábyrgðina. Varðandi ábyrgðina bendir hver á annan en böndin berast alltaf að Wonderful Copenhagen (WF) og undirfyrirtæki þess. Forsvarsmenn segja að samningurinn við WF sé ekkert leyndarmál, WF tók að sér að sjá um allan undirbúning fyrir tiltekna upphæð, punktur og basta. Fyrir nokkrum dögum var skipuð sérstök nefnd sem á að komast til botns í málinu. Ríkisendurskoðun er líka að rannsaka málið og tvær nefndir á vegum danskra ráðuneyta, semsé fjórar rannsóknarnefndir. Þessar rannsóknir taka væntanlega nokkra mánuði en á að vera lokið fyrir vorið. Nokkrir af stjórnendum WF hafa verið reknir og stjórnarformaðurinn sagði af sér daginn áður en hann átti að fá uppsagnarbréfið
Komnir á fremsta hlunn með að aflýsa keppninni
DR hefur nú, eftir mikinn þrýsting stjórnmálamanna, birt 600 blaðsíðna skýrslu um undirbúning keppninnar og samninga við WF. Það er fróðleg lesning og margt sem kemur á óvart. Til dæmis að verklýsing og kostnaðaráætlun WF komst fyrir á einu blaði í A4 stærð. Í skýrslunni kemur líka fram að þangað til hálfum mánuði fyrir keppnina óttuðust forsvarsmenn DR að aflýsa yrði keppninni vegna þess að WF og undirfyrirtæki þess voru komin í þrot. Til að bjarga málinu lánaði DR tugi milljóna króna til að tryggja að keppnin félli ekki niður. WF hefur haldið því fram að DR hafi sífellt komið með nýjar kröfur um allt mögulegt sem hafi hleypt kostnaðinum upp, þessum ásökunum vísar DR á bug.
307 milljónir?
Fyrir nokkrum dögum sagði dagblaðið MX Metroexpress frá því að samkvæmt gögnum sem blaðið hefði undir höndum hefði kostnaðurinn við Eurovision keppnina í heild numið 307 milljónum danskra króna (ca 6.4 milljarðar íslenskir). Þingmaður sem blaðið ræddi við sagði að sér hefði svelgst á morgunkaffinu þegar hann sá þessa tölu. DR hefur ekki staðfest að þessi tala sé rétt, en hvort svo er kemur væntanlega í ljós þegar rannsóknarnefndirnar birta sín gögn.
Fjölmiðlar hér í Danmörku hafa eytt miklu púðri í þetta mál og tala alltaf um það sem “skandale” hneyksli. Þeir hafa týnt allt mögulegt til sem ekki er hægt að koma fyrir í pistli sem þessum. En eftir að hafa fylgst með þessu máli vikum og mánuðum saman getur þessi pistlahöfundur tekið undir með blaðamanni sem sagði eitthvað á þá leið að„hér var ekki bara pottur brotinn heldur heil búsáhaldabúð."