„Kreddupólitík hæstvirtrar ríkisstjórnar virðist nú vera að ná hámarki. Hæstvirtur fjármálaráðherra fetar nú í fótspor fyrrum forsætisráðherra Breta, Liz Truss, með glannaskap í efnahagsmálum. Hann heldur blaðamannafund um hvernig hann ætlar að spara þjóðinni fúlgur fjár með því að knýja gamla Íbúðalánasjóð í þrot. Álíka vanhugsað og hugmyndir Truss um að hægt sé að endurreisa breska hagkerfið með því að ráðast í umfangsmiklar skattalækkanir. Ásýndarstjórnmál drifin áfram af úreltri hugmyndafræði um útvistun á pólitískri ábyrgð. Íslenskir fjármálamarkaðir kaupa ekki þessa hugmynd hæstvirts ráðherra, ekki frekar en markaðir keyptu skattalækkunarhugmyndir bresku ríkisstjórnarinnar.“
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og væntanlegur formaður hennar, í inngangi að fyrirspurn um málefni ÍL-sjóðs sem hún lagði fyrir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokks, í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag.
Kristrún sagði að sú leið sem Bjarni hafi boðað í málefnum sjóðsins, að setja sjóðinn þrot með lagasetningu, væri enn ein bókhaldsbrellan, tilfærsla á skuld og tilfærsla á pólitísku verkefni sem fór illa yfir á lífeyrissjóði landsins. „Það er í hæsta máta óábyrgt að bera þessa vúdúhagfræði á borð fyrir þjóðina. Annað hvort skilur hæstvirtur fjármálaráðherra ekki hvernig einfaldar fjármálaafurðir virka, eða hann er að ljúga af þjóðinni. Og ég veit ekki hvort er verra. Þegar á hæstvirtan ráðherra er gengið er svarað með frekju og hroka og skýlt sér á bakvið lögfræðiálit um lögmæti þessarar aðgerðar, sem er engan vegin afdráttarlaust. Samkvæmt hæstvirtum ráðherra ætlar ríkissjóður enga ábyrgð að bera á framtíðarskuldbindingum opinberrar stofnunar sem sett var á laggirnar í pólitískum tilgangi með lífeyri þjóðarinnar að veði.“
Slík öfugmæli að um háalvarlegt mál væri að ræða
Bjarni brást við fyrirspurninni með því að segja það fáránlegt að opna á umræðu um ÍL-sjóð í óundirbúnum fyrirspurnum í ljósi þess að sérstök umræða fari fram um málefni sjóðsins á þingi síðar í dag. Þrátt fyrir það ætlaði hann að bregðast við nokkrum hlutum. „Það er mikill ábyrgðarhluti þegar háttvirtur þingmaður stendur hér í þingsal og heldur því fram að fram sé komið að ríkið ætli enga ábyrgð að bera á framtíðarskuldbindingum ÍL-sjóðs. Þetta eru slík öfugmæli þegar verið er að reyna að vitna í þann vanda sem ég hef vakið athygli á að það er háalvarlegt mál.“
Það væri fyrst ástæða til þess að hafa áhyggjur ef ákveðið væri að víkja sér undan ábyrgð ríkissjóðs á málinu. „Þegar háttvirtur þingmaður sakar mig um að skilja ekki fjármálamarkaði þá ætla ég að halda því fram að háttvirtur þingmaður skilji ekkert í lögfræðinni í þessu máli. Vegna þess að það eina sem ég hef gert á þessum tímapunkti er að vekja athygli á alvarlegri stöðu ÍL-sjóðs sem á ekki fyrir skuldbindingum sínum. Ég hef vakið athygli á hvers eðlis ríkisábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs er og ég hef sagt að það væri mitt mat, en á endanum ákvörðun Alþingis, að við ættum að gera upp sjóðinn á grundvelli þeirra loforða sem gefin voru á sínum tíma. Sem felur í sér fullt uppgjör gagnvart öllum kröfuhöfum á grundvelli ríkisábyrgðarinnar með slitum ÍL-sjóðs.“
Bjarni endurtók það sem hann sagði á blaðamannafundi á fimmtudag, að sú leið sem hann boði muni spara ríkissjóði aukna vænta áhættu inn í framtíðina. „En það tjón sem háttvirtur þingmaður er að vísa til að verði út á fjármálamörkuðunum ræðst á endanum á næstu 22 árum á því hvernig þeir spila úr þeim eignum sem til þeirra ganga með fullu uppgjöri á öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs, eins og þær standa á uppgjörsdegi. Og fáránlegt að vera með fullyrðingar um það hvernig úr mun spilast.“
Sagði Kristrúnu vera að tala fyrir því að strjúka fjármálaöflunum í landinu
Kristrún kom aftur í pontu og sagði það ótrúlegt að fylgjast með því að einn daginn hafi ráðherrann talað um að spara ríkissjóði 150 milljarða króna og þann næsta talað um að ekkert sé verið að gera. „Það er augljóslega verið að taka framtíðargreiðsluflæði frá þessum sjóðum. Það átta sig allir á því sem skilja fjármálaafurðir sem eru óuppgreiðanlegar með þessari ríkisábyrgð. Þetta er útúrsnúningur á orðræðu sem hæstvirtur fjármálaráðherra beitti fyrir sig í síðustu viku. Fullt uppgjör er greinilega eitthvað allt annað skilgreiningaratriði í þessu máli. “
Hún benti svo á að Bjarni hefði ekki svarað fyrirspurninni sem hún lagði fram, um þá peninga sem ríkið tók að láni úr ÍL-sjóði, í ljósi þess að ekki hafi staðið til að uppfylla framtíðargreiðsluflæðis sjóðsins. Með því hafi verið farið í sjóði sem aðrir eiga.
Bjarni sagði málflutning Kristrúnar vera útúrsnúning. Þau ríkisskuldabréf sem seld hafi verið inn í ÍL-sjóð í skiptum fyrir milljarðana 190 væru bestu skuldir sem sjóðurinn gæti átt. Skuldabréfin væru verðtryggð og hentuðu sjóðnum vel. „Ég hafna þessu algjörlega.“
Kristrún væri að sjá fyrir sér að láta sjúklingnum, ÍL-sjóði, blæða hægt og rólega út og láta okkur það engu varða þó að í hverjum mánuði vaxi framtíðarskuldbindingar skattgreiðenda um 1,5 milljarða króna, á hverju ári 18 milljarða króna. Hún væri að segja að strjúka þyrfti „fjármálaöflunum í landinu, kröfuhöfunum. Fjármálamarkaðir verða ávallt að vera í forgangi.“ Hann væri hins vegar að mæla fyrir hönd framtíðarkynslóðs þessa lands sem ættu það ekki skilið að ríkisábyrgð sem var skýrt hafi verið skilgreind sem einföld yrði útvíkkuð í sjálfskuldarábyrgð.