Ef marka má skoðanakannanir í Bretlandi mun enginn flokkur ná meirihluta í þingkosningunum í maí. Báðir stóru flokkarnir standa því frammi fyrir því að þurfa að svara spurningum um það með hvaða litlu flokkum þeir geti hugsað sér að mynda ríkisstjórn með eftir 7. maí.
Verkamannaflokkurinn hefur kallað eftir því að Íhaldsflokkurinn geri hreint fyrir sínum dyrum um það hvort flokkurinn íhugi samstarf við Breska Sjálfstæðisflokkinn UKIP. Nigel Farage, formaður UKIP, sagði í dag að David Cameron, formaður Íhaldsflokksins, væri maður sem hægt væri að setjast niður með og ræða málin við. Í kjölfar þessara ummæla hefur Verkamannaflokkurinn haldið því fram að verið sé að undirbúa „eitrað“ samstarf flokkanna tveggja.
Íhaldsmenn hafa á móti varað við því að samsteypustjórn Verkamannaflokksins og SNP, Skoska þjóðarflokksins, sé í kortunum og hún yrði óstöðug. SNP mun líklega geta haft talsverð áhrif enda allt útlit fyrir stórsigur hans í Skotlandi.
Meðlimir beggja stóru flokkanna hafa sagt að samstarf við UKIP annars vegar og SNP hins vegar sé ekki á dagskránni. Formenn þeirra, David Cameron og Ed Miliband, hafa hins vegar ekki neitað neinu.
Kosningabaráttan er á fullu þrátt fyrir að flestir séu í páskafríi. Allir leiðtogarnir héldu í baráttuna á ný eftir umræðuþáttinn á ITV í gærkvöldi.