Íbúar sem búa í grennd við Hlemmtorg hafa áhyggjur af því að hafa ekki möguleika á því að leggja bíl við hús sín, ti dæmis til þess að afferma vörur. Þetta segir Kolbrún Baldursdóttir í samtali við Kjarnann um framtíðarskipulag svæðisins umhverfis Hlemm. „Þarna býr fólk sem ég hef verið að heyra dálítið í sem hefur áhyggjur af því þegar verið er að koma með vörur, þegar það er að koma úr verslun og er kannski með lítil börn. Fólk hefur verið að spyrja mig: „Er búið að ræða við íbúa til dæmis á Rauðarárstíg?“,“ segir Kolbrún.
Hún saknar þess að samráð hafi verið haft við íbúa. „Það þarf að tala við íbúana. Hugnast þeim þessi breyting? Sjá þeir fyrir sér einhver vandamál við þetta? Ég veit alveg hvernig það er að koma heim með fjóra poka úr Bónus. Þú hefur ekki leyfi til þess að fara og stoppa fyrir framan dyrnar þínar og þú ert kannski með lítil börn á handleggnum. Það eru þessir hlutir sem er kannski ekki alveg búið að hugsa.“
„Ég vil samt segja að mér finnst myndir af þessu mjög flottar. Ég sé alveg fyrir mér að þetta geti orðið ótrúlega kósý og skemmtilegt torg,“ bætir Kolbrún við.
Framkvæmdir hafnar á Rauðarárstíg
Nýlega hófust framkvæmdir við fyrsta áfanga að nýju Hlemmtorgi og nú þegar hefur Rauðarárstíg milli Laugavegar og Bríetartúns verið lokað. Á vef Reykjavíkurborgar má sjá hvernig útlit þessa vegarspotta mun líta út að framkvæmdum loknum. Gert er ráð fyrir að akstursrýmið verði hellulagt og að Rauðarárstígur verði lokaður til suðurs við gömlu Gasstöðina en þar verður snúningshringur fyrir fólksbíla. Næst Bríetartúni verða fjögur stæði fyrir rafbíla, fyrir miðju austan megin verða skammtíma bílastæði en vestan megin verða sleppistæði fyrir leigubíla. Þá verða tvö stæði fyrir hreyfihamlaða við snúningshringinn, nær Hlemmi.
Líkt og áður segir er búið að loka fyrir bílaumferð en á vef borgarinnar segir að aðgengi að gönguleiðum verði gott að aðgengi að gangstétt haldi sér „mest allan tímann“.
Fólk kvartað yfir sérmkerktum stæðum í hliðargötum Laugavegar
Þrátt fyrir að finnast fyrirhugað torg flott veltir Kolbrún engu að síður fyrir sér tilgangi þess. „Fyrir hverja er þetta? Kannski aðallega túrista?“ spyr hún. „Nú er fólk að segja mér sem býr í efri hverfum að það kemur ekki lengur þarna niður á þetta svæði, nema kannski á hátíðisdögum.“
Þegar Kolbrún er spurð hvers vegna svo sé nefnir hún að aðgengi geti átt þar hlut að máli, fólk sé mistilbúið til þess að labba. „Ég hef mikið verið að fylgja þessum málum eftir hvað varðar aðgengi og sérstaklega hvað varðar þá sem eru fatlaðir eða með skerta hreyfifærni. Þau finna rosalega mikið fyrir því núna að geta ekki lagt sínum stæðisbílum, sínum P-merktu bílum, nálægt verslunum og þjónustu eins og var hægt að gera. Ef við horfum til dæmis á Laugaveginn, þá er ekki hægt að leggja bíl þar. Sérmerktu stæðin eru í hliðargötum og fólk hefur verið að kvarta yfir því. Hvernig á það að komast að, kannski inn í verslun eða á veitingastað inn á sjálfum Laugaveginum“ segir Kolbrún. „Þetta er eitt af því sem fólk hefur verið að láta mig vita af að það sé ósátt við.“
Einnig þurfi fútafúnir að leggja leið sína upp fyrir eða niður fyrir göngugötuna Á Laugavegi til þess að komast í leigubíl.
Spyr hvað verði um bílastæðin
Breytingarnar við Hlemm einskorðast ekki bara við Rauðarárstíg milli Laugavegar og Bríetartúns. Umferð einkabíla verður til að mynda engin um Laugaveg milli Snorrabrautar og Katrínartúns. Einungis strætisvagnar munu aka niður Laugaveg frá Katrínartúni og um Hverfisgötu niður á Snorrabraut. Þá verður Rauðarárstíg einnig lokað sunnan við Hlemm að Stórholti.
Við þessar breytingar verður bílaplan sem stendur við húsnæði gamla Búnaðarbankans, þar sem nú er Center Hotel, hluti af nýju Hlemmtorgi. Kolbrún veltir því fyrir sér hvað bíleigendur muni gera í kjölfarið „Þau fara öll, þessi bílastæði. Þú þarft að fara með bílinn annað ef þú býrð þarna. Ég veit ekki hvar fólk á Rauðarárstíg á að geyma bílana, það þarf að fara inn í önnur hverfi. Fólk er farið að kvarta yfir því að það sé farið að þurfa að leggja út fyrir hverfi sitt.“
Að sögn Kolbrúnar ríkir ákveðinn skortur á samráði við íbúa í skipulagsmálum og hún efast um að íbúar svæðisins séu sáttir við þetta. „Það vantar sveigjanleikann. Það vantar lipurð í kerfið hjá meirihlutanum í skipulaginu. Það vantar þessa lipurð og skilning á mismunandi þörfum fólks,“ segir Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins.