Saksóknarar í Svíþjóð hafa boðist til þess að fara til London til þess að geta yfirheyrt Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Hingað til hafa þeir hafnað því að fara til London, þar sem Assange hefur dvalið í tæplega þrjú ár í sendiráði Ekvador.
Marianne Ny saksóknari útskýrði hvers vegna hún hefði skipt um skoðun á málinu. „Mín skoðun hefur alltaf verið að það að taka viðtal við hann í sendiráði Ekvadors í London myndi skila gæðaminna viðtali, og að hann þyrfti að koma til Svíþjóðar hvort sem er ef málið fer fyrir rétt í framtíðinni,“ sagði hún í tilkynningu um málið. Nú sé tíminn hins vegar að renna út því hluti málanna gegn honum fyrnist í ágúst. Þess vegna hafi hún ákveðið að bjóðast til þess að fara til London.
Handtökuskipun á hendur Assange vegna kynferðisbrota var gefin út í ágúst 2010. Hann hefur neitað sök og ekki viljað fara til Svíþjóðar vegna þess að hann telur að þaðan yrði hann framseldur til Bandaríkjanna.
Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, segir í samtali við AP fréttastofuna að þessi afstöðubreyting saksóknara sé sigur fyrir Assange. Hann gagnrýndi þó harðlega að svona langan tíma hefði tekið að koamst að þessari niðurstöðu. Í fjögur og hálft ár hefði því verið haldið fram að saksóknari gæti ekki komið til London því það yrði ólöglegt.
Einn lögmanna Assange, Per Samuelsson, fagnaði einnig þessu tilboði saksóknara og sagði líklegt að Assange myndi fallast á yfirheyrslu í London. „Þetta er það sem við höfum krafist í fjögur ár. Julian Assange vill vera yfirheyrður svo hægt sé að hreinsa hann af þessu.“