Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata gagnrýndi sölu Íslandsbanka í síðustu viku, bæði í aðsendri grein í Morgunblaðinu og í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins á Alþingi.
Hann hóf mál sitt á þingi með því að benda á að nú stæði til hjá stjórnvöldum að halda áfram að selja hlut sinn í bankanum. Ríkið seldi 35 prósent hlut sinn í Íslandsbanka í júní í fyrra og hlutabréf í bankanum voru í kjölfarið skráð á markað. Kjarninn greindi frá því í janúar síðastliðnum að Bankasýsla ríkisins hefði lagt fram tillögu til Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um að stofnunin fengi heimild til að selja eftirstandandi 65 prósent hlut íslenskra ríkisins í Íslandsbanka. Stefnt er að því að salan fari fram í nokkrum áföngum en heimildin á að gilda í tvö ár, eða út árið 2023.
Björn Leví nefndi í ræðu sinni að á fundi fjárlaganefndar í vikunni hefðu Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, Jón Þór Sturluson, deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, og Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, mætt og minnst á ýmis atriði sem vert væri að skoða – og sérstaklega með tilliti til spurninga vegna fyrri sölunnar, þ.e. um það hvað væri eðlilegt fyrirkomulag í svona frumútboði.
Ríkissjóður „bókstaflega að gefa þessa eign til annarra“
„Það er dálítið mikilvægt að hafa þetta í huga og skilja þetta. Það er eðlilegt að það sé á pínulitlu undirverði þegar verið er að selja. Markmið þess sem er að selja, til dæmis eins og Íslandsbanka, er að andvirði eignarinnar aukist í kjölfarið. Það er yfirlýst markmið. Það er viljandi reynt að hafa það þannig. Maður spyr hversu mikið væri eðlilegt, þ.e. áður en maður fer að klóra sér í hausnum yfir því að hækkunin sé orðin of mikil. Ef ég væri til dæmis að selja bílinn minn og myndi selja hann á milljón – hann er reyndar alger drusla og myndi aldrei að seljast á því verði – og einhver myndi kaupa hann á milljón og selja hann strax aftur á 1,6 milljónir, myndi ég þá ekki hugsa: Ég klúðraði þessu, ég hefði getað selt bílinn minn á miklu hærra verði?
Þannig er þetta nákvæmlega með sölu Íslandsbanka. Hann er kominn í 60 prósent hærra verð heldur en hann var þegar hann var seldur. Umsagnaraðilar sem komu í fjárlaganefnd og fjölluðu um þetta miðuðu við kannski 10 prósent hækkun, þá væru allir ánægðir, bæði kaupendur og seljendur. Ekki 60 prósent hækkun. Þá erum við, ríkissjóður, sameign okkar allra hérna, bókstaflega að gefa þessa eign til annarra,“ sagði þingmaðurinn á Alþingi í vikunni.
Einstaklega heppilegt fyrir þau sem keyptu
Björn Leví sagði í grein í Morgunblaðinu í vikunni að salan væri meiri háttar mál, sérstaklega eftir „klúðrið“ síðast.
„Það er nefnilega mjög merkilegt að öll gögn sem við fáum frá fjármálaráðuneyti, bankasýslu og álíka aðilum segja okkur að fyrsta útboð Íslandsbanka hafi heppnast mjög vel – og útskýra það bara með því að það hafi verið mikill áhugi og að margir einstaklingar hafi keypt hlut í bankanum. Það var einstaklega heppilegt fyrir þau sem keyptu, auðvitað, því verðið hefur hækkað ansi mikið síðan útboðið fór fram eða um 60 prósent eða svo. Það er ekki annað en hægt að kalla það góð kaup. En mitt verkefni er að skoða hvernig bankinn var seldur. Ekki hvernig hann var keyptur (það er sérstakt verkefni út af fyrir sig),“ skrifaði hann.
Þingmaðurinn sagði að það hlyti að vera öllum augljóst „að út frá sjónarhorni ríkissjóðs, okkar sameiginlega sjóðs, var þessi sala algjör hörmung. Samt ákvað bankasýslan að greiða viðbótarþóknun til ráðgjafa í ljósi „góðrar niðurstöðu“. Þóknun sem endaði í tæplega 1,4 milljörðum króna.“
„Því miður er verið að selja banka í stríði. Málið fær örugglega ekki þá athygli sem það þarf vegna þess og fjármálaráðherra sleppur örugglega alveg við að bera nokkra ábyrgð á þessu risavaxna klúðri sem sala Íslandsbanka er búin að vera fyrir ríkissjóð. Ráðherra segir bara „vel heppnað“ nægilega oft þrátt fyrir að það bókstaflega æpi á okkur hversu mikið klúður þetta mál er,“ skrifaði hann að lokum.