Líkurnar á að fá hæfasta fólkið til að gegna tilteknum störfum aukast til muna með auknu framboði af starfsfólki, svo sem þátttöku kvenna á almennum vinnumarkaði. Áður fyrr höfðu konur síður eða enga möguleika á að gegna ýmsum stöðum og störfum í þjóðfélaginu. Það þýddi að minna framboð var af starfskröftum til starfa í stéttum sem áður þóttu karlastéttir, eins og framkvæmdastjórar, læknar og flugmenn. Greiningardeild Arion banka fjallar í dag um hvernig kynjajafnrétti stuðlar að efnahagslegum framförum og útskýrir meðal annars með dæmi af vinnumarkaði, um starfs verðbréfamiðlara, sem lengi hefur verið hefðbundið karlastarf.
„Með tilkomu kvenna á markað fyrir verðbréfamiðlara eykst meðalhæfni þeirra umtalsvert eða úr 40 í 45 í þessu dæmi. Með því að geta ráðið verðbréfamiðlara úr stærri hóp eykst samkeppni og þar með líkur á því að hæfasta fólkið. Slíkt eykur að öllu óbreyttu framleiðni sem eykur hagvöxt. Svipað getur átt við margar aðrar stéttir og ekki síður störf sem áður þóttu eingöngu henta konum en karlar hafa í auknum mæli sótt í, t.d. leikskólakennslu,“ segir í pistli greiningardeildarinnar. Urmull af rannsóknum síðustu ár bendi til þess að kynjajafnrétti geti stuðlað að hagvexti og efnahagslegum framförum. „Orsakasamhengið þarna á milli er reyndar ekki fulljóst, að því leyti að efnahagslegar framfarir geta m.a. fært völd nær konum og þannig aukið kynjajafnrétti. Flestir virðast í það minnsta sammála því að orsakasamhengið virki í báðar áttir að einhverju leyti, en þó eru sumir sem hafa fundið mun sterkari áhrif kynjajafnréttis á hagvöxt heldur en hið gagnstæða.“ Eftirfarandi mynd er birt sem sýnir tengsl landsframleiðslu á mann og kynjajafnrétti.
„Svo virðist sem kynjajafnrétti á Íslandi sé með því mesta sem gerist í heiminum. Það er líka svo að miklar efnahagslegar framfarir hafa fylgt auknu kynjajafnrétti síðan í byrjun 20. aldar. Þó að margt komi þarna til hefur atvinnuþáttaka kvenna eflaust haft mikið að segja um það hve mikill hagvöxtur hefur verið sl. 100 ár eða svo. Atvinnuþáttaka kvenna jókst mjög á síðustu öld og var undir lok hennar nánast til jafns við atvinnuþáttöku karla.“
Í lok greinarinnar segja sérfræðingar greiningardeildarinnar það vera rétt að taka fram að þeir eigi ekki svör á reiðum höndum um hvernig markmiðum um janfrétti skuli náð að fullu. „Það er t.d. ekki sjálfgefið að boð og bönn geti stutt við jafnrétti í hvers kyns mynd sem er. Engu að síður virðast vera sterk hagfræðileg rök fyrir því að standa þurfi vörð um kynjajafnrétti. Raunar er hægt að yfirfæra þau rök á að hvers kyns misrétti og ójöfn tækifæri á grundvelli annars en hæfileika einstaklinga sé skaðlegt efnahagslífinu. Það er eins með mannauð og önnnur verðmæti – það er öllum fyrir bestu að þau séu nýtt á sem hagkvæmastan og skynsamastan hátt.“
Pistill greiningardeildar Arion banka um kynjajafnrétti og efnahagslegar framfarir.