Sveitarstjórnir Ásahrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Skaftárhrepps hafa ákveðið að atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna skuli fara fram samhliða Alþingiskosningum þann 25. september í samræmi við tillögu samstarfsnefndar sem skipuð var fulltrúum þeirra allra. Verkefnið, sem unnið hefur verið að um nokkurra mánaða skeið, hefur hlotið nafnið Sveitarfélagið Suðurland og er unnið í samræmi við stefnu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um sameiningu sveitarfélaga og þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023.
Samstarfsnefndin var skipuð í nóvember í fyrra í framhaldi af könnunarviðræðum sveitarfélaganna. Í byrjun júní var svo tillaga nefndarinnar og skýrsla henni til grundvallar, Sveitarfélagið Suðurland-stöðugreining og forsendur, birt. Er það álit nefndarinnar að fram skuli fara atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameiningu þeirra.
Sveitarstjórnirnar hafa fjallað um málið á fundum sínum undanfarna daga og vikur og fjórar þeirra hafa þegar afgreitt tillögu samstarfsnefndarinnar og einnig samþykkt að fela henni undirbúning atkvæðagreiðslunnar. Skaftárhreppur á enn eftir að taka málið til síðari umræðu og verður það gert á fundi um miðjan júlí.
Sameinað sveitarfélag yrði 15.659 ferkílómetrar og þar með það stærsta á Íslandi að flatarmáli, eða um 16 prósent af heildarstærð landsins. Í stöðugreiningu á mögulegri sameiningu, þar sem hugmyndir samstarfsnefndarinnar og niðurstöðum greininga ráðgjafa er lýst, kemur fram að fjarlægðir eru meðal helstu áskorana. Öll sveitarfélögin skora á ríkið að bæta samgöngur innan svæðisins með sérstakri áherslu á bundið slitlag á héraðs- og tengivegi.
Íbúar sveitarfélaganna fimm voru 5.317 í ársbyrjun 2021. Nýja sveitarfélagið yrði því níunda fjölmennasta sveitarfélag á Íslandi. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár og um 22 prósent á einum áratug. Fjölgunin skýrist af nýjum íbúum með erlent ríkisfang. Þeir voru 1.157 árið 2019 eða um 23 prósent íbúa. Hlutfall þeirra var langhæst í Mýrdalshreppi eða um 40 prósent. „Áskorun felst í því að taka á móti þessum íbúum og nýta menntun þeirra og færni,“ segir í stöðugreiningunni. Íbúum með íslenskt ríkisfang hefur hins vegar fækkað á sama tíma.
Sveitarfélögin hafa öll sína sérstöðu og eru ólík á marga vegu þó að þau eigi einnig fjölmargt sameiginlegt. Í Rangárþingi eystra búa yfir 1.900 manns en í Ásahreppi um 270. Í flestum þeirra hefur ferðaþjónusta vaxið gríðarlega síðustu ár enda þar að finna margar helstu náttúruperlur Íslands. Innan tveggja þeirra, Ásahrepps og Rangárþings ytra, eru margar stærstu virkjanir landsins sem af hljótast umtalsverðar tekjur. Bæði tekjur og skuldir sveitarfélaganna fimm eru misjafnar.
Á svæðinu eru fimm sveitarstjórnir með samtals 29 fulltrúa. Þá eru tvö byggðaráð starfandi með samtals sex fulltrúa. Á vegum sveitarfélaganna eru auk þess starfandi 36 fastanefndir sem í sitja 152 fulltrúar. Samtals skipa sveitarfélögin fulltrúa í 370 sæti í 103 stjórnum, nefndum eða ráðum.
Kostnaður við laun stjórna, ráða og nefnda nemur samanlagt um 80-90 milljónum króna á ári. Hjá sveitarfélögunum eru 34 starfsmenn og eru starfsmenn í fjármálum og stjórnsýslu hlutfallslega fleiri á svæðinu en hjá samanburðar sveitarfélögum, segir í stöðugreiningunni. Til samanburðar eru 35 starfsmenn í Sveitarfélaginu Árborg þar sem íbúar eru tvöfalt fleiri.
Sveitarfélögin fimm eiga þegar í miklu samstarfi sín á milli sem og við önnur sveitarfélög á Suðurlandi. Í stöðugreiningunni kemur fram að með sameiningu skapist m.a. tækifæri til að efla sérfræðiþekkingu með því að ráða í störf sem snúa að lögfræðiráðgjöf, persónuvernd, skjalastjórnun, fjölmenningarmálum og upplýsingatækni. Þá veiti sameining einnig tækifæri til að fækka fulltrúum, hækka laun eða draga úr kostnaði. Þá ætti að skapast hagræðing við fækkun sveitarstjóra úr fimm í einn.
Skólar og hjúkrunarheimili
Í stöðugreiningunni er farið yfir það sem kallað er framtíðarsýn sem m.a. felst í því að sameinist sveitarfélögin verði stjórnsýsla og þjónusta áfram þar sem starfsstöðvar eru í dag og að fulltrúi sveitarstjóra á hverjum stað verði tengiliður íbúa við stjórnsýsluna. Stafræn upplýsingatækni verði nýtt til að einfalda aðgengi íbúanna að stjórnsýslunni og þar fram eftir götunum.
Á svæðinu eru fimm grunnskólar með um 550 nemendur og jafnmargir leikskólar með rúmlega 260 nemendur. Þrír tónlistarskólar eru starfandi á svæðinu og nemendur þeirra eru rúmlega 300 talsins. Í stöðugreiningunni kemur fram að ekki séu „miklar breytingar“ fyrirsjáanlegar á skipulagi skólastarfs verði sveitarfélögin sameinuð og fjarlægðir á milli byggðakjarna „tryggja að skólastarf verður áfram í öllum „hverfum“ nýs sveitarfélags“. Þá er framtíðarsýnin einnig sú að skólarnir haldi sjálfstæði sínu og að stjórnendur verði áfram í hverjum skóla. Einnig er stefnt að því að öll hjúkrunarheimili innan svæðisins verði starfrækt áfram.
Meirihluti á móti hálendisþjóðgarði
Atvinnulíf sveitarfélaganna fimm hefur einkennst af landbúnaði, matvælaframleiðslu og þjónustu við landbúnað. Síðustu árin hefur ferðaþjónustan hins vegar sótt verulega í sig veðrið. Í því sambandi er í stöðugreiningunni bent á að sameinað sveitarfélag yrði bæði aðili að Vatnajökulsþjóðgarði og Kötlu jarðvangi og „mikilvægt er að gætt verði að hagsmunum þeirra í rekstri og stefnumótum þjóðgarða“. Einnig segir að tækifæri séu í „öflugri hagsmunagæslu gagnvart ríkisvaldi í skipulagsmálum á hálendinu“.
Í samantekt RÚV á afstöðu sveitarstjórna og hreppsnefnda til stofnunar hálendisþjóðgarðs sem birt var í byrjun árs kom fram að fjögur hinna fimm sveitarfélaga sem kosið verður um að sameina á Suðurlandi voru andvíg stofnun hans en eitt henni hlynnt; Skaftárhreppur.
Hvað landbúnað varðar hefur fjöldi býla með búfénað staðið í stað frá aldamótum en þeim hefur fækkað um 27 í Skaftárhreppi, um 18 í Rangárþingi eystra og níu í Mýrdalshreppi. Fjölgun hefur hins vegar orðið um 16 í Ásahreppi og 38 í Rangárþingi ytra. Þá hefur mikil aukning orðið í ræktun alifugla á svæðinu frá árinu 2000.
Ásahreppur leggur á lágmarksútsvar
Að teknu tilliti til sameiningarframlaga má búast við að skuldir lækki og tekjur hækki, þannig að sameinað sveitarfélag hafi „enn betri forsendur til að standa undir skuldbindingum frá árinu 2022,“ segir í stöðugreiningunni. Álagning útsvars á launatekjur má vera á bilinu 12,44 prósent til 14,52 prósent. Ásahreppur leggur á lágmarksútsvar en hin sveitarfélögin fjögur hámarksútsvar.
Samstarfsnefndin lagði einnig til við sveitarstjórnirnar að þær lýsi því yfir að þær muni ekki nýta heimild í 2. mgr. 120. gr. sveitarstjórnarlaga, komi til þess að sameiningartillaga verði aðeins samþykkt af íbúum í hluta sveitarfélaganna, nema að undangengnu samráði við íbúa. Í því felst að hafni íbúar einhvers eða einhverra sveitarfélaganna sameiningartillögunni, munu aðrar sveitarstjórnir ekki taka ákvörðun um sameiningu án þess að hafnar verði nýjar sameiningarviðræður og kosið að nýju.
Verði sameining sveitarfélaganna fimm hins vegar samþykkt mun hið nýja sveitarfélag taka til starfa eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí á næsta ári. Þó að verkefnið gangi undir heitinu Sveitarfélagið Suðurland er ekki þar með sagt að það yrði nafnið á hinu nýja sveitarfélagi. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.