Félagsfólk í Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, samþykkti á aðalfundi sínum sem fram fór í gær að hækka félagsgjald sitt úr 1,0 í 1,1 prósent tímabundið til tveggja ára. Tilgangurinn er að styrkja Vinnudeilusjóð Sameykis fyrir komandi átök á vinnumarkaði. Í félaginu eru alls tólf þúsund félagsmenn.
Á aðalfundinum sagði Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, að í ljósi þess hvernig umræðan hefði verið í samfélaginu á vettvangi atvinnurekenda og samtaka þeirra beri Sameyki að búa sig undir átök með því að efla vinnudeilusjóð. Þrengt væri að lífsgæðum með ásókn í opinbera innviði þjóðarinnar ásamt aðgerðaleysi stjórnvalda í jöfnun launa á milli markaða. Sameyki yrði tilbúið undir þær deilur með sterkari Vinnudeilusjóði. Síðasta stóra allsherjarverkfallið á Íslandi var árið 2015.
Kjarasamningar á almennum markaði verða lausir síðar á þessu ári. Sameyki gerir kjarasamninga á almennum markaði við stóra vinnustaði á borð við Isavia, Orkuveitu Reykjavíkur og Fríhöfnina.
Þórarinn segir að það liggi ljóst fyrir, við þær aðstæður, að þörf sé fyrir öflugan Vinnudeilusjóð. „Hækkun félagsgjaldsins tel ég vera nauðsynlega aðgerð í að styrkja sjóðinn til að efla baráttuna vegna komandi kjarasamninga.“