Litlar breytingar eru á fylgi stjórnmálaflokka milli mánaða samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Þar ber helst til tíðinda að fylgi Samfylkingarinnar eykst um 0,9 prósentustig og mælist nú 10,7 prósent en fylgi Pírata dregst saman um 0,8 prósentustig og mælist slétt ellefu prósent.
Fylgi annarra flokka er nánast það sama og það var í lok október. Stjórnarflokkarnir þrír eru þeir flokkar sem njóta mest stuðnings. Sjálfstæðisflokkurinn mælist áfram sem áður stærsti flokkur landsins með 22,7 prósent fylgi og Framsókn sá næst stærsti með 17 prósent fylgi. Vinstri græn fylgja þar á eftir með 13 prósent fylgi. Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er því 52,7 prósent, sem er 0,7 prósentustigum minna en fyrir mánuði og 1,6 prósentustigum minna en flokkarnir þrír fengu samanlagt í kosningunum í september.
Stjórnarandstaðan með 42 prósent fylgi
Viðreisn mælist með alls 8,4 prósent, og tapar hálfu prósentustigi milli mánaða. Flokkur fólksins stendur nánast í stað milli kannana Gallup og mælist nú með 7,9 prósent fylgi.
Minnstur þeirra flokka sem eiga þingmenn mælist Miðflokkurinn, en 3,8 prósent landsmanna segjast styðja hann.
Það er minna fylgi en Sósíalistaflokkur Íslands, sem náði ekki inn á þing í kosningunum í september, mælist með en 4,4 prósent styðja þann flokk.
Sameiginlegt fylgi stjórnarandstöðuflokkanna fimm á Alþingi mælist nú 41,9 prósent.
Um netkönnun var að ræða sem gerð var daganna 1. til 30. nóvember 2021. Heildarúrtaksstærð var tíu þúsund manns og þátttökuhlutfall var 51 prósent. Vikmörk í könnuninni eru frá 0,6 til 1,2 prósent og því eru flestar breytingar á fylgi flokka milli mánaða innan þeirra.
MMR líka með könnun í dag
MMR birti líka nýja könnun á fylgi flokka í dag. Niðurstaða hennar er aðeins á skjön við það sem sést hjá Gallup og ber þar hæst til tíðinda að Vinstri græn dala um tæp tvö prósentustig milli kannanna og mælast með 12,1 prósent fylgi. Það myndi gera Vinstri græn minni en Pírata, sem mælast með 12,4 prósent fylgi, og flokkur forsætisráðherra því ekki þriðji stærsti flokkur landsins samkvæmt MMR.
Þá mælist Flokkur fólksins með 5,6 prósent fylgi hjá MMR, sem er 2,3 prósentustigum minna en hjá Gallup en ekki langt frá því fylgi sem flokkurinn mældist með um miðjan nóvember hjá MMRþ
Annað er nokkuð svipað. Sjálfstæðisflokkurinn stendur nánast í stað og mælist með 22,5 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn mælist nokkuð stærri hjá MMR en Gallup, eða með stuðning 18,2 prósent kjósenda.
Fylgi Samfylkinginarinnar dalar um 0,5 prósentustig milli kannanna hjá MMR og mælist nú 10,6 prósent á meðan að Viðreiðsn bætir við sig einu prósentu og nýtur stuðnings níu prósent landsmanna. Miðflokkurinn stendur pikkfastur í stað í 4,2 prósentum og fylgi Sósíalistaflokksins mælist fjögur prósent.
Könnunin var framkvæmd 29. nóvember til 2. desember 2021 og var heildarfjöldi svarenda 933 einstaklingar, 18 ára og eldri. Könnun MMR er því framkvæmd á mun skemmra tímabili en könnun Gallup.