Guðmundur Andri Thorsson fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar segir að árið 2021 hafi verið viðburðarýrt ár. „Það einkenndist af vonbrigðum og ósigrum sem við þurfum að læra af í mínum flokki; en megum ekki festast í eins og íslenskum vinstrimönnum hættir til að gera. Samfylkingin var ekki mynduð til að vera hatrammasti stjórnarandstöðuflokkurinn með ósveigjanlegustu kröfurnar. Hún var mynduð til að stjórna. Og semja. Og laða saman. Og skapa.“
Þetta segir hann í stöðuuppfærslu á Facebook. Guðmundur Andri var í öðru sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir Samfylkinguna en komst ekki inn á þing í síðustu kosningum. Hann vék sæti fyrir Þórunni Sveinbjarnardóttur sem nú er komin inn á þing.
Greinir hann frá því að daginn eftir að hann datt út af þingi hafi dauðan hval rekið á fjöruna í grennd við hann á Álftanesi. „Einhver reyndi að telja mér trú um að þetta væri góðs viti en sú tíð er löngu liðin að dauður hvalur tákni annað en dauðan hval – sem þarf að losna við. Í mínum augum var þetta tákn um stöðu mína í pólitíkinni – ég var strandaður – og áminning um að ég þyrfti að svipast um eftir öðru að gera.“
Gerði mistök sem kostuðu hann starfið
Guðmundur Andri segir að honum hafi fundist gaman í pólitíkinni. „Félagsveran í mér naut samskiptanna við fólk, mér fannst gaman að setja mig inn í mál og vinna þau í nefndum og mér fannst gaman halda ræður og skrifa greinar og vera talsmaður sjónarmiða sem ég trúi einlæglega á, mér fannst gaman að skoða manneskjurnar í þessum heimi, horfa í návígi hvernig völd og áhrif virka, hvernig fólk beitir þeim – og beitir þeim ekki.
Ég naut samstarfsins við aðra, þvert á flokka, en mér leiddust átökin og leikirnir kringum þau, enda alltaf verið sáttfús. Kannski of. Ég var hins vegar reynslulítill og gerði mistök sem kostuðu mig starfið, býst ég við. Þannig gengur það,“ skrifar hann.