Sjálfstæðisflokkurinn tapar manni til Bjartar framtíðar á milli útreikninga kosningaspárinnar. Þetta eru niðurstöður spárinnar eftir að könnun Félagsvísindastofnunnar HÍ sem birtist í Morgunblaðinu í dag var reiknuð með. Samfylkingin er enn stærsta stjórnmálaaflið í Reykjavík með 32 prósenta fylgi, mesta fylgi nokkurs framboðs síðan kosningaspáin var fyrst reiknuð í febrúar.
Besti flokkurinn og Samfylkingin mynduðu meirihluta í borgarstjórn eftir kosningarnar 2010 og sitja með níu fulltrúa nú. Besti flokkurinn býður nú fram undir merkjum Bjartrar framtíðar. Saman fá þessi framboð níu fulltrúa kjörna gangi kosningaspá dagsins eftir.
Fylgi framboða til borgarstjórnar í Reykjavík
[visualizer id="4609"]
Fylgisaukningu Samfylkingarinnar má nánast alla skýra með fylgistapi Sjálfstæðisflokksins síðan 9. maí síðastliðinn. Framboðin voru bæði með fimm fulltrúa í síðustu spá en könnun Félagsvísindastofnunnar hefur mikil áhrif á útkomuna, enda hafa kannanir þaðan reynst nokkuð marktækar. Í könnuninni í dag mælist Samfylkingin með sex fulltrúa, Björt framtíð með fjóra en Sjálfstæðisflokkurinn aðeins þrjá. Píratar og Vinstri grænir fá sinn fulltrúann hvort. Kosningaspáin vegur könnunina á móti þremur síðustu könnunum og því eru fylgissveiflurnar ekki eins dramatískar og í nýjustu könnuninni. Þó er rétt að nefna að mest hreyfing hefur verið á fylgi framboðanna í mælingum Félagsvísindastofnunnar og því áhugavert að sjá næstu könnun sem hugsanlega staðfestir þessar fylgissveiflur.
Röðun fulltrúa samkvæmt nýjustu spá
[visualizer id="4611"]
Píratar, Vinstri græn og Framsókn tapa öll fáeinum prómílum á milli kosningaspáa en Dögun færist upp um 0,4 prósentustig. Það dugar þó ekki til að krækja í sæti á lista 20 efstu framboðenda. Fimmtán ná kjöri en í sextánda sæti situr nú sjötti maður Samfylkingarinnar og þar á eftir annar fulltrúi Pírata. Oddviti Framsóknar og flugvallavina er ekki lengur á lista tuttugu efstu.
Þróun á fylgi flokka í Reykjavík
Kosningaspá keyrð á tímabilinu 26. febrúar til 20. maí 2014.
[visualizer id="4616"]
Kannanir í kosningaspá 20. maí 2014:
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 29. apríl.
- Könnun Félagsvísindast. fyrir Morgunblaðið 29. apríl-6. maí.
- Þjóðarpúls Capacent 15. apríl – 7. maí.
- Könnun Félagsvísindast. fyrir Morgunblaðið 12. – 15. maí.
Vikmörk í kosningaspá 20. maí 2014: 1,1 prósent til 3,8 prósent. Niðurstöður nýjustu kosningaspárinnar verða birtar í heild sinni í Kjarnanum á fimmtudag.