Samfylkingin mælst nú með 19 prósent fylgi samkvæmt nýjustu könnun Maskínu. Það er 4,6 prósentustigum meira fylgi en flokkurinn mældist með í október og næstum tvisvar sinnum meira en flokkurinn fékk í kosningunum 2021, þegar hann fékk 9,9 prósent atkvæða. Samfylkingin er einn af tveimur flokkum sem bæta við sig fylgi milli mánaða. Hinn er Flokkur fólksins sem bætir þó einungis við sig 0,4 prósentustigum. Hinir sjö flokkarnir sem eru mældir af Maskínu tapa fylgi.
Helsta breytingin sem orðið hefur á högum Samfylkingarinnar síðan að síðasta könnun var gerð er kosning Kristrúnar Frostadóttur sem formanns flokksins, en það gerðist 28. október síðastliðinn.
Píratar mælast með 13,4 prósent fylgi sem er 4,8 prósentustigum meira en þeir fengu upp úr kjörkössunum í fyrrahaust en tæpu prósentustigi minna en þeir mældust með í október.
Samanlagt hafa þessir tveir flokkar, sem hafa bætt langmestu við sig af fylgi það sem af er ári, tekið til sín 13,9 prósentustig af nýju fylgi á fyrsta ári kjörtímabilsins.
Nálgast Sjálfstæðisflokkinn
Litlu munar nú á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokki, stærsta flokki landsins, sem tapar prósentustigi milli mánaða og mælist með 21,8 prósent. Það gerist þrátt fyrir að flokkurinn hafi haldið gríðarlega fjölmennan landsfund, þann fyrsta frá árinu 2018, þar sem Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður hans eftir að hafa verið skoraður á hólm af Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Fylgi Sjálfstæðisflokks er nú 2,6 prósentustigum undir kjörfylgi.
Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist nú með 7,1 prósent fylgi. Flokkurinn hefur alls tapað 5,5 prósentustigum frá síðustu kosningum, eða meiri en nokkur annar flokkur. Sem stendur eru einungis þrír flokkar, sem mælast allir með í kringum fimm prósent fylgi, minni en Vinstri græn samkvæmt könnun Maskínu.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mælist nú 43,7 prósent og dalar um 1,8 prósentustig milli mánaða. Það fylgi myndi ekki duga fyrir meirihluta á þingi. Flokkarnir þrír fengu 54,4 prósent atkvæða í kosningunum 2021 og því hafa þeir tapað 10,7 prósentustigum af fylgi á fyrsta ári kjörtímabilsins.
Þrír við fimm prósent markið
Viðreisn dalar lítillega milli mánaða og mælist með níu prósent fylgi, sem er þó enn 0,7 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum 2021.
Flokkarnir þrír sem mælast við fimm prósent þröskuldinn, sem þarf að komast yfir til að fá uppbótarþingmann kjörinn, eru Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn með sitt hvor sléttu fimm prósentin og Miðflokkurinn með 4,9 prósent.
Könnunin fór fram dagana 4. til 22. nóvember 2022 og voru 2.483 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.