Viðreisn – stjórnmálasamtök og Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands eru einu skráðu stjórnmálasamtök landsins, samkvæmt upplýsingum sem finna má á vef stjórnarráðsins og byggja á skráningu stjórnmálasamtaka hjá Ríkisskattstjóra.
Það má þó fastlega búast við því að fleiri flokkar og samtök skrái sig hjá Ríkisskattstjóra á næstunni, enda þurfa allir flokkar sem ætla að bjóða fram lista til sveitarstjórnarkosninganna 14. maí að vera skráðir sem stjórnmálasamtök 14. maí. Á þetta var minnt í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu í dag.
Stjórnmálasamtakaskrá sett á fót með lögum
Ákvæði um að stjórnmálasamtök skuli skrá sig sérstaklega hjá Ríkisskattstjóra var bætt inn í lög um starfsemi stjórnmálasamtaka í fyrra.
Í þeim lögum segir að Ríkisskattstjóri skrái stjórnmálasamtök og starfræki í því skyni stjórnmálasamtakaskrá, sem birt skuli almenningi á vef stjórnarráðsins ásamt upplýsingum sem fylgi umsóknum stjórnmálasamtakanna um skráningu.
Þau nýmæli eru svo að finna í nýjum kosningalögum, sem tóku gildi um áramót, að staðfesting á skráðu heiti og listabókstaf stjórnmálasamtaka á að fylgja öllum framboðslistum sem skilað er inn til yfirkjörstjórna.
„Hyggist stjórnmálasamtök bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum þann 14. maí nk., þurfa þau að vera skráð í stjórnmálasamtakaskrá,“ segir í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins í dag og er síðan vísað á vef Skattsins þar sem stjórnmálasamtök geta fundið frekari upplýsingar um umsóknarferlið.