Samfylkingin boðar sókn gegn sérhagsmunum, aukinn stuðning við fjölskyldufólk, stóreignaskatta og metnaðarfyllri aðgerðir í loftslagsmálum í kosningastefnu sinni, sem kynnt var á fundi í Aurora Basecamp í Hafnarfirði í dag.
Kosningastefna flokksins er sett fram undir slagorðinu Betra líf, fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir og sagði Logi Einarsson formaður flokksins í ávarpi sínu að í stefnunni væri ekkert að finna sem Samfylkingin væri óviss um að geta framkvæmt, ef hún kæmist til valda eftir komandi kosningar.
Hann sagði Samfylkinguna þannig ekki ætla í „loforðakapphlaup“ við flokka sem kæmu fram með „óraunhæfar tillögur“ fyrir kosningar, flokka sem væru fyrst og fremst að bjóða sig fram til þess að „veita hávært aðhald“. Logi nefndi ekki neinn sérstakan flokk í þessu samhengi.
Barnabætur fyrir meðaltekjufólk
Í kosningastefnu Samfylkingarinnar eru þó nokkur loforð, sem sum hver eru ansi stór að vöxtum. Þannig segist flokkurinn ætla að endurreisa stuðningskerfið fyrir barnafjölskyldur með því að greiða fullar barnabætur með öllum börnum til foreldra með allt að meðaltekjum, sem séu 1.200 þúsund krónur hjá pari eða 600 þúsund krónur hjá einstæðum foreldrum.
Þetta segir flokkurinn að muni skila sér í því að meðalfjölskylda með tvö börn, sem í dag fái engar barnabætur, fái 54 þúsund krónur í hverjum mánuði.
Einnig lofar Samfylkingin því að hækka þak á greiðslum í fæðingarorlofi og vinna með sveitarfélögum að því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og hækka fæðingarstyrk námsmanna og foreldra utan vinnumarkaðar í dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins.
Stóreignaskattar á hreina eign yfir 200 milljónum
Í skattamálum segist Samfylkingin vilja beita skattkerfinu til þess að draga úr ójöfnuði. Flokkurinn segist ætla sér að innleiða á ný stóreignaskatt á hreina eign umfram 200 milljónir og efla skatteftirlit og skattrannsóknir til að draga úr undanskotum. Þá vill flokkurinn fela embætti skattrannsóknarstjóra ákæruvald.
Einnig segist Samfylkingin ætla sér að hækka veiðigjöld og taka upp sérstakt álag á stærstu útgerðir, sem veiða yfir fimm þúsund þorskígildistonn á ári. Þetta segir flokkurinn að muni einungis leggjast á um tuttugu stærstu fyrirtækin í íslenskum sjávarútvegi.
Þúsund leigu- og búseturéttaríbúðir á ári
Í húsnæðismálum segist Samfylkingin vilja hafa forystu um grundvallarstefnubreytingu og að fjölskyldur eigi rétt á húsnæðisöryggi hvort sem þær eigi heimili sitt eða leigi.
Samfylkingin segist ætla að stuðla að því að byggðar verði 1.000 leigu- og búseturéttaríbúðir árlega með húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða og að það kalli á tvöföldun stofnframlaga til slíkra bygginga. Einnig segist flokkurinn vilja færa húsnæðis- og byggingarmál undir eitt ráðuneyti sem hafi yfirsýn og beri ábyrgð á uppbyggingu um allt land.
Þá segist flokkurinn ætla að styðja við rannsóknir og nýsköpun í þróun bygginga til að ná niður byggingarkostnaði og huga sérstaklega að því að tryggja framboð á íbúðum fyrir ungt fólk og húsnæðikjarna fyrir eldra fólk.
Frítekjumark öryrkja fari úr 110 þúsund í 200 þúsund
Í málefnum eldri borgara og öryrkja segist Samfylkingin vilja draga úr skerðingum í almannatryggingum og ráðast í heildarendurskoðun almannatrygginga. Í kosningastefnu flokksins segir að markmiðið sé að lífeyrir verði ekki lægri en lægstu laun, frítekjumark lífeyrisgreiðslna verði fjórfaldað upp í 100 þúsund krónur og frítekjumark atvinnutekna verði þrefaldað upp í 300 þúsund krónur.
Þær aðgerðir sem Samfylkingin lofar því að ráðast í strax er að hækka frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna úr 110 þúsund krónum upp í 200 þúsund og tvöfalda frítekjumark eldra fólks vegna lífeyrissjóðsgreiðslna, úr 25 þúsund upp í 50 þúsund, auk þess að hækka frítekjumark atvinnutekna upp í 200 þúsund krónur.
Keflavíkurlína og Landlína auk Borgarlínu
Í loftslagsmálum boðar Samfylkingin „nýja og miklu metnaðarfyllri“ aðgerðaáætlun, auk þess sem lagt er til að markmið um að minnsta kosti 60 prósenta samdrátt í losun Íslands fyrir árið 2030 verði fest í lög.
Þá segist flokkurinn ætla að hefja undirbúning að Keflavíkurlínu, grænni tengingu á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar og flýta Borgarlínu og öðrum loftslagsvænum framkvæmdum í samgönguáætlun.
Einnig segist flokkurinn ætla sér að byggja upp Landlínu, „heildstætt almenningsvagnanet svo að það verði einfaldur og raunhæfur kostur fyrir fólk að ferðast um Ísland án einkabíls.“
Flokkurinn segist líka ætla sér að hraða orkuskiptum í samgöngum og rafvæða bílaleigubílaflotann með skattalegum hvötum og markvissri uppbyggingu hleðsluinnviða. Þá vill Samfylkingin afnema skattaafslátt sem er í dag veittur af kaupum bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, tengiltvinnbílum.
Frítekjumark fyrir lítil fyrirtæki og einyrkja
Hvað efnahags- og atvinnumál varðar segist Samfylkingin vilja að Ísland vaxti út úr kreppunni. Flokkurinn segist hafna „niðurskurðaráætlunum ríkisstjórnarinnar til næstu ára“ sem boðaðar hafi verið í fjármálaáætlun næstu ára með orðunum „afkomubætandi ráðstafanir“.
Samfylkingin segist ætla sér að fjárfesta af krafti í grunninnviðum og auka stuðning við nýjar stoðir í atvinnulífinu. Flokkurinn segist einnig ætla sér að einfalda rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja og einyrkja, auka þjónustu við þau og létta álögur á þau með setningu frítekjumarks fyrir fyrirtæki, sem samkvæmt kosningastefnunni á að eiga eitthvað skylt við persónuafslátt einstaklinga.
Grunnframfærsla námsmanna verði fært upp að neysluviðmiði
Í menntamálum segist Samfylkingin ætla sér að hækka grunnframfærslu námsmanna í dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins og tryggja að frítekjumark námsmanna sem eru á námslánum fylgi launaþróun.
Flokkurinn segist einnig ætla að efla iðn-, verk- og starfsnám þannig að fleiri geti fengið inngöngu í þessar greinar, auk þess að efla listnám með lækkun skólagjalda við Listaháskóla Íslands og greiðara aðgengi að listnámi um allt land.
Samfylkingin segist einn ætla sér að auka framlög til rannsóknar- og vísindasjóða og styðja nýsköpun og þróunarstarf í menntamálum.
Meira fjármagn í heilbrigðismál
Samfylkingin segist vilja setja meira fé í heilbrigðismál, ráðast í aðgerðir gegn undirmönnun og stytta biðlista eftir brýnum aðgerðum. Þá vill flokkurinn ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðismálum um allt land.
Flokkurinn segist jafnframt vilja að ríkið greiði allan ferðakostnað innanlands vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu við fólk fjarri heimabyggð, auk þess að nýta betur fjármagn sem veitt sé til heilbrigðismála.
Þá vill flokkurinn létta álagi af Landspítala með „kerfisbreytingum, nýjum búsetu- og þjónustuúrræðum fyrir eldra fólk, aukinni heimaþjónustu og markvissri fjölgun hjúkrunarrýma.“
Þjóðaratkvæði um ESB og ný stjórnarskrá
Samfylkingin vill að Ísland gangi inn í Evrópusambandið og er með það í kosningastefnu sinni að staðið verði við fyrirheit um að þjóðin fái að kjósa um framhald aðildarviðræðna.
Einnig vill Samfylkingin að unnið verði að nýrri stjórnarskrá á grunni þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 2012. „Þjóðareign auðlinda, jafnt atkvæðavægi og umhverfisvernd eru á meðal þess sem við teljum brýnt að binda í stjórnarskrá,“ segir í kosningastefnu flokksins.