Samfylkingin vill auka þrepaskiptingu í skattkerfinu, draga úr hlutfallslegu vægi flatra skatta og auka hlutdeild skattlagningar á fjármagn. Flokkurinn telur einnig sterk rök hníga að upptöku stóreignarskatts.
Þetta kemur fram í nýrri endurskoðaðri stefnu Samfylkingarinnar, sem kynnt var á þriðjudaginn. Samkvæmt fréttatilkynningu frá flokknum hefur undirbúningur hennar tekið þrjú ár og var hún unnin í víðtæku samstarfi almennra flokksfélaga.
Lægri skattar á launafólk en hærri skattar á fjármagn
Í nýju stefnunni segist flokkurinn vilja lækka skatta á vinnu almenns launafólks en hækka þess í stað hlutdeild skattlagningar á fjármagn. „Við viljum draga úr hlutfallslegu vægi flatra skatta og gjalda sem leggjast þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur en innheimta fullt gjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareign,“ segir í stefnunni.
Flokkurinn bætir við að skerpa megi á og auka þrepaskiptingu í skattkerfinu, auk þess sem sterk rök hnígi að upptöku „hóflegs stóreignaskatts með háu frítekjumarki“.
Tímabundin ráðstöfun eftir hrunið
Auðlegðarskattur var síðast settur á í ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar árið 2009, þegar Steingrímur J. Sigfússon, forseti alþingis og þingmaður VG, var fjármálaráðherra. Þegar Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var orðinn fjármálaráðherra árið 2012, sagði hún skattinn vera hugsaðan sem tímabundna ráðstöfun og að hún legði áherslu á að endurnýja hann ekki.
Guðrún Helga Lárusdóttir, einn eigenda og stofnenda fjárfestingafélagsins Stálskips., stefndi íslenska ríkinu fyrir álagningu auðlegðarskatts árin 2010, 2011 og 2012. Guðrún taldi skattlagninguna ólögmæta, þar sem hún væri brot á eignarrétti og færi í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Skattlagningin var hins vegar lögmæt samkvæmt dómi Héraðsdóms árið 2013 og var því ríkið sýknað af kröfum Guðrúnar. Hæstiréttur staðfesti svo sýknudóminn ári síðar.