Endurskoðendur Samherja Holding, félags sem heldur utan um þorra erlendrar starfsemi Samherjasamstæðunnar, hafa undirritað ársreikning félagsins án fyrirvara. Í ársreikningi Samherja Holding vegna ársins 2020 var fyrirvari gerður við ársreikninginn vegna óvissu „um málarekstur vegna fjárhagslegra uppgjöra sem tengjast rekstrinum í Namibíu.“ Sá fyrirvari var gerður bæði af stjórn Samherja Holding og endurskoðanda félagsins.
Í tilkynningu á heimasíðu Samherjasamstæðunnarsem birt var í dag eru birtar valdar upplýsingar úr ársreikningi Samherja Holding. Reikningnum sjálfum hefur enn sem komið er ekki verið skilað inn til ársreikningarskrár Skattsins, en slíkt á að gera fyrir lok ágústmánaðar ár hvert.
Í tilkynningunni kemur fram að Samherji Holding hafi hagnast um 7,9 milljarða króna á árinu 2021, ef miðað er við gengi evru í lok síðasta árs. Eignir félagsins voru 95,3 milljarðar króna og eigið féð 64,8 milljarðar króna. Systurfélagið Samherji hf. átti eigið fé upp á 94,3 milljarða króna í lok síðasta árs og því á samstæðan, sem fram til 2018 var eitt fyrirtæki, samanlagt 159,1 milljarð króna í eignir umfram skuldir.
Helstu eignir Samherja Holding eru fyrirtæki á sviði veiða, vinnslu og sölu sjávarafurða í Evrópu og Norður-Ameríku. Þá hefur Samherji Holding einnig fjárfest í flutningastarfsemi og er stærsti hluthafinn í Eimskip með 32,79 prósent eignarhlut.
Skipt upp í tvennt 2018
Á árinu 2018 gerðist það að Samherja var skipt upp í tvö fyrirtæki. Það var samþykkt 11. maí 2018 á hluthafafundi og skiptingin látin miða við 30. september 2017.
Eftir það er þorri innlendrar starfsemi Samherja og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf.
Í byrjun árs 2021 var greint frá því að Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más og Helgu, hafi verið falið að leiða útgerðarstarfsemi Samherja í Evrópu, sem fer fram í gegnum Samherja Holding. Til að vera nákvæmari þá fer hún fram í gegnum dótturfélagið Alda Seafood Holding BV. Í ársreikningi Samherja Holding fyrir árið 2020 segir að í desember það ár hafi félagið öll önnur hlutabréf sín í CR Cuxhavener Reederei GmbH, Icefresh GmbH, Nergård Invest Samherji AS, Onward Fishing Company Limited, Sæbóli fjárfestingafélagi ehf. og Seagold Limited inn sem hlutafjárframlag í Alda Seafood Holding BV, sem er í 100 prósent eigu Samherja Holding.
Fjárfestingafélagið Sæból hét áður Polar Seafood. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög héldu meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta.
Auk þess á Sæból þrjú dótturfélög í Færeyjum, þar á meðal Spf Tindhólm.
Hinn hluti Samherjasamstæðunnar, Samherji hf., var að uppistöðu í eigu sömu aðila og eiga Samherja Holding um áratugaskeið. Það breyttist 15. maí 2020. Þá birtist tilkynning á heimasíðu Samherjasamstæðunnar um að Þorsteinn Már Baldvinsson, Helga S. Guðmundsdóttir og Kristján Vilhelmsson væru að færa næstum allt eignarhald á Samherja hf. til barna sinna. Sú tilfærsla átti sér þó formlega stað á árinu 2019.
Hagnaður Samherja hf. á árinu 2021 nam alls 17,8 milljörðum króna í samanburði við 7,8 milljónir á árinu 2020.
Eignir Samherja hf í árslok 2021 námu 128 milljörðum króna og eigið fé 94,3 milljörðum.
Umfangsmikil rannsókn sem fer brátt að ljúka
Samherji og lykilstarfsfólk innan samstæðu fyrirtækisins hafa verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra frá lokum árs 2019. Auk þess er málið í rannsókn og ákærumeðferð í Namibíu.
Hérlendis hófst rannsókn eftir að Kveikur og Stundin opinberuðu að grunur væri á að Samherji hefði greitt mútur, meðal annars til háttsettra stjórnmálamanna, til að komast yfir fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla. Á sama tíma voru birtar upplýsingar sem bentu til þess að Samherji væri mögulega að stunda stórfellda skattasniðgöngu og peningaþvætti.
Átta manns hið minnsta hafa fengið réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá embætti héraðssaksóknara vgna málsins. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már, forstjóri Samherja. Aðrir sem kallaðir hafa verið inn til yfirheyrslu og fengið stöðu sakbornings við hana eru Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, og uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson.
Í umfjöllun Stundarinnar um rannsóknina fyrr í þessum mánuði var haft eftir Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknara að rannsóknin á Íslandi væri langt komin. Líkt og Kjarninn greindi frá í júní er helsta hindrun þess að hægt sé að ljúka rannsókn á þeim anga Samherjamálsins sem er til rannsóknar hjá íslenskum rannsóknarembættum sú að enn vantar á að fá ýmiskonar gögn frá Namibíu til Íslands. Réttarbeiðni vegna þessa er enn útistandandi og ekki liggur fyrir hvenær hún verður þjónustuð. Fundir með bæði þarlendum rannsóknaryfirvöldum, og síðar háttsettum stjórnmálamönnum, hafa liðkað fyrir því að það gangi hraðar fyrir sig.