Samherji fiskeldi ehf. hefur gert samninga við HS Orku um uppbyggingu laxeldis á landi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun. Fyrirhuguð heildarfjárfesting í verkefninu nemur 45 milljörðum króna, samkvæmt tilkynningu á vef Samherja, en þar segir einnig að stjórn félagsins hafi þegar ákveðið að leggja 7,5 milljarða í fyrsta áfanga þess.
Á vef Samherja segir að félagið hafi tryggt sér aðgang að sjó og raforku til að framleiða allt að 40 þúsund tonn af laxi á landi árlega og samið við landeigendur vegna uppbyggingarinnar. Kynningarfundur fer fram um verkefnið í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ á morgun.
Uppbyggingin á að verða í þremur áföngum, á næstu 11 árum, samkvæmt tilkynningu Samherja, þar sem segir að ráðgert sé að leita til fleiri fjárfesta þegar kemur að frekari stækkun landeldisins.
„Landeldisáformin í Auðlindagarðinum teljast stór í samanburði við önnur landeldisverkefni sem nú eru í undirbúningi á alþjóðavísu. Fjölmörg störf verða til á framkvæmdatímanum og á annað hundrað störf við landeldið þegar vinnsla á afurðum hefst,“ segir í tilkynningu Samherja.
Samkvæmt áætlunum Samherja fiskeldis mun seiðaeldi við fyrsta áfanga hefjast í upphafi árs 2023 og áframeldi og vinnsla á afurðum á árunum 2024 og 2025. Í fyrsta áfanga á framleiðslan að verða 10.000 tonn af laxi og áætluð fjárfesting upp á 17 milljarða króna. Í öðrum áfanga verður bætt við 10.000 tonnum og í þriðja áfanga 20.000 tonnum.
Ef allt gengur að óskum verður landeldið í Auðlindagarðinum komið í full afköst á árinu 2032, samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins.